Leikirnir voru hluti af þrettándu og fimmtándu umferð en voru færðir fram vegna þátttöku félaganna í Evrópukeppnum í sumar.
Víkingar unnu 4-0 sigur á KA fyrir norðan þar sem þeir hafa náð í þrettán stig af fimmtán mögulegum undanfarin fimm tímabil. Matthías Vilhjálmsson opnaði markareikninginn sinn í Víkingstreyjunni með tveimur mörkum og hin mörkin skoruðu Birnir Snær Ingason og Ari Sigurpálsson.
Birnir Snær lagði upp fyrsta markið fyrir Matthías á óeigingjarnan hátt og skoraði síðan annað markið eftir frábæran sprett upp vinstri kantinn. Það má sjá öll þessi mörk hér fyrir neðan.
Víkingar eru með fullt hús eftir níu leiki en samt bara sex stigum á undan Blikum sem hafa unnið sex leiki í röð.
Breiðablik og Valur urðu helst bæði að vinna, eftir úrslitin á Akureyri, ætluðu þau sér að fylgja Víkingum eftir. Breiðablik fagnaði 1-0 sigri á Val og Valsmenn eru því átta stigum á eftir toppliðinu úr Fossvoginum.
Það var markahæsti maður Bestu deildarinnar, Stefán Ingi Sigurðarson, sem skoraði eina mark leiksins á 49. mínútu en þetta var hans sjöunda deildarmark á leiktíðinni.
Það má sjá sigurmark Stefáns Inga hér fyrir neðan.