Erlent

Fimm­tán ára danskar stúlkur ráði sjálfar þungunar­rofi

Atli Ísleifsson skrifar
Danski jafnréttismálaráðherrann Marie Bjerre  segir að ætlunin með breytingunni sé einnig að samræma réttindin við samræðisaldur.
Danski jafnréttismálaráðherrann Marie Bjerre segir að ætlunin með breytingunni sé einnig að samræma réttindin við samræðisaldur. EPA

Danska ríkisstjórnin hyggst lækka lágmarksaldur stúlkna sem geta gengist undir þungunarrof án samþykkis foreldra. Núgildandi lög kveða á um að stúlkur yngri en átján ára þurfi samþykki foreldra, en breytingin fæli í sér að sá aldur yrði lækkaður í fimmtán.

Danskir fjölmiðlar greina frá þessu og vísa í orð jafnréttismálaráðherrans Marie Bjerre.

Eins og staðan er í dag þurfa stúlkur á aldrinum fimmtán til sautján ára að sækjast eftir samþykki foreldra áður en gengist er undir þungunarrof.

„Þungunarrof getur framkallað ólíkar tilfinningar, sektarkennd og skömm. „Það getur verið niðurlægjandi og haft miklar afleiðingar í för með sér að þurfa að biðja um samþykki foreldra ef maður er yngri en átján ára,“ segir Bjerre. „Þessu viljum við breyta svo að ungar konur geti sjálfar valið hvort þær vilji aðkomu foreldra.“

Bjerre segir ennfremur að ætlunin með breytingunni sé að samræma við samræðisaldur.

Úr íslenskum lögum um þungunarrof:

5. gr. Heimild til þungunarrofs hjá stúlku sem er ólögráða fyrir æsku sakir.

Heimilt er að rjúfa þungun samkvæmt ákvæðum laga þessara hjá stúlku sem er ólögráða fyrir æsku sakir, að hennar beiðni, án samþykkis foreldra eða forráðamanna. Í tengslum við þungunarrof skal henni boðin fræðsla og ráðgjöf um getnaðarvarnir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×