Erlent

Ungum nauð­gurum fjölgar

Jóhann Hlíðar Harðarson skrifar
Kynferðisofbeldi drengja á Spáni færist í aukana. Vert er að taka fram að þessir ungu menn tengjast efni fréttarinnar ekki beint.
Kynferðisofbeldi drengja á Spáni færist í aukana. Vert er að taka fram að þessir ungu menn tengjast efni fréttarinnar ekki beint. Joaquin Corchero/Getty

Drengjum undir lögaldri sem nauðga jafnöldrum sínum hefur fjölgað um 60 prósent á Spáni á nokkrum árum. Sérfræðingar telja að helsta ástæða þessarar þróun sé gegndarlaust gláp drengjanna á klám á netinu.

Á síðustu vikum hafa komið upp nokkur keimlík mál á Spáni þar sem unglingsstrákar í hópum hafa nauðgað ungum stúlkum, alveg niður í ellefu ára gamlar.

Hvað veldur því að ungir strákar fara um í hópum og nauðga jafnöldrum sínum og það á opinberum stöðum á borð við almenningsgarða og salerni verslunarmiðstöðva eins og gerst hefur í vor í Alicante og Barcelona?

Fjölmiðlar hafa leitað svara og fengið margvísleg. Flestum ber þó saman um að gegndarlaust aðgengi og áhorf á klám á netinu sé ein helsta ástæða þess að ungir strákar fara um í hópum eins og hungraðir úlfar og leita sér fórnarlamba.

Herma eftir kláminu

Rannsóknir sem gerðar hafa verið á Spáni sýna að 87 prósent unglingspilta horfa á klám, þeir byrja glápið venjulega um 14 ára aldur og langflestir horfa á það heima hjá sér. Stelpurnar horfa minna en það hefur þó aukist mikið á síðustu árum.

Og sviðsetningar þessara óhæfuverka eru eins og teknar úr ódýrum klámmyndum. Drengirnir sex, allir undir lögaldri, sem nauðguðu 11 ára stelpu inni á salerni í verslunarmiðstöð í Alicante, tóku nauðgunina upp á síma og settu svo myndina í dreifingu.

Eduardo Esteben, yfirsaksóknari í sakamálum ólögráða barna, segir í samtali við El Mundo að þessir ungu strákar noti sama tungutak og heyrist í myndunum sem þeir horfa á, þeim finnst mikilvægt að fá læk á það sem þeir gera og mikilvægast af öllu er að vera í sviðsljósinu.

Kynferðisglæpum fjölgar ógnarhratt

Á síðustu árum hefur drengjum undir lögaldri sem nauðga fjölgað um 60%, meira en í nokkrum öðrum aldurshópi.

Og kynferðisglæpum fjölgar, í fyrra voru 2870 nauðganir kærðar til lögreglu sem er meira en 50 prósenta fjölgun frá árinu 2019. Í þessu samhengi er vert að hafa í huga að samkvæmt rannsókn sem gerð var í háskólanum í Barcelona kæra einungis 2% fórnarlamba kynferðisglæpi til lögreglunnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×