Íslenski boltinn

Sjáðu flautumark Víkinga og grátlega endinn fyrir Fylkismenn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nikolaj Andreas Hansen sá til þess að Víkingar fóru burt með öll þrjú stigin úr Eyjum.
Nikolaj Andreas Hansen sá til þess að Víkingar fóru burt með öll þrjú stigin úr Eyjum. Vísir/Bára

Víkingar héldu sigurgöngu sinni áfram í Bestu deild karla í fótbolta í gær eftir dramatískan sigur í Vestmannaeyjum.

Sigurmörkin gerast varla dramatískari en það sem Nikolaj Andreas Hansen, fyrirliði Víkinga, skoraði á fimmtu mínútu í uppbótartíma í Eyjum.

Víkingar höfðu verið í stórsókn en ekki náð að skora. Hansen sýndi frábær tilþrif eftir að hafa fengið boltann eftir hornspyrnu og þetta reyndist vera flautumark því dómarinn flautaði leikinn af um leið og Eyjamenn byrjuðu leikinn aftur eftir markið.

Breiðablik og FH unnu bæði sína leiki og Blikar fóru upp í þriðja sætið með sigri á Fylki í Árbænum.

Fylkismenn eru kannski á botni deildarinnar en þeir áttu flottan leik á móti meisturum Blika og því var endirinn grátlegur. Blikar fengu öll þrjú stigin eftir sjálfsmark Fylkismanna undir lokin.

Klæmint Andrasson Olsen kom Blikum í 1-0 en Ólafur Karl Finsen jafnaði. Nikulás Val Gunnarsson skallaði síðan boltann óvart í eigið mark á 86. mínútu.

FH-ingar hafa unnið alla heimaleiki sína í sumar og þeir unnu 2-1 sigur á Keflavík eftir að hafa komist 2-0 yfir með mörkum Úlfs Ágústs Björnssonar og Kjartan Henrys Finnbogasonar. Varamaðurinn Viktor Andri Hafþórsson skoraði mark Keflavíkur með sinni fyrstu snertingu.

Hér fyrir neðan má sjá mörkin úr þessum þremur leikjum í gær.

Klippa: Markið úr leik ÍBV og Víkings
Klippa: Mörkin úr leik Fylkis og Breiðabliks
Klippa: Mörkin úr leik FH og Keflavíkur

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×