Umfjöllun og viðtöl: FH - Keflavík 2-1 | FH-ingar áfram með fullt hús stiga á heimavelli

Hjörvar Ólafsson skrifar
FH-ingar komust aftur á sigurbraut þegar liðið fékk Keflavík í heimsókn í kvöld. 
FH-ingar komust aftur á sigurbraut þegar liðið fékk Keflavík í heimsókn í kvöld.  Vísir/Diego

FH bar sigurorð af Keflavík þegar liðin áttust við í sjöttu umferð Bestu deildar karla í fótbolta á Kaplakrikavelli í kvöld.

Úlfur Ágúst Björnsson kom heimamönnum yfir á 39. mínútu leiksins en hann skoraði með föstu skoti eftir flott spil á milli hans og Vuk Oskar Dimitrijevic á vinstri kantinum . 

Úlfur Ágúst var þarna að skora sitt annað mark í deildinni í sumar. Kjartan Henry Finnbogason tvöfaldaði svo forystu FH-liðsins í upphafi seinni hálfleiks með fjórða deildarmarki sínu.  

Kjartan Henry komst þá inn í sendingu Edin Osami til baka á Mathias Brinch Rosenorn í marki Keflavíkur. Kjartan Henry lyfti boltanum laglega yfir Mathias. 

Eftir seinna mark FH-inga tóku Keflvíkingar við sér og settu FH-inga undir smá pressu. Viktor Andri Hafþórsson sem kom inná sem varmaður strengdi líflínu fyrir gestina þegar hann skoraði með sinni fyrstu snertingu í leiknum undir lok leiksins. 

Lengra komust Keflavík ekki og 2-1 sigur FH staðreynd. FH hefur 10 stig eftir þennan sigur en liðið situr í fimmta sæti deildarinnar. Keflavík er hins vegar með fjögur stig í því tíunda. 

Heimir Guðjónsson var sáttur að leik loknum. Vísir/Hulda Margrét

Heimir: Náðum upp fínum spilköflum

„Ég er gríðarlega sáttur við að ná í þrjú stig á móti hörku Keflavíkurliði. Mér fannst við spila vel, sérstaklega í fyrri hálfleik þar sem við náðum að láta boltann ganga vel. Við skorum tvö fín mörk og hefðum getað skorað meira,“ sagði Heimir Guðjónsson, þjálfari FH.

„Svo ná þeir að þrýsta okkur aðeins aftar án þess að ná að skapa sér nein teljandi færi fyrir utan markið sem þeir skora. Mér fannst sigurinn aldrei í hættu og fyllilega verðskuldað að við færum með sigur af hólmi,“ sagði hann enn fremur.  

„Ef ég ætti að taka einhvern út fyrir sviga þá myndi ég vilja nefna Kjartan Kára sem áttu góðan leik en svo er gaman að sjá að samvinna Úlfs Ágúst og Kjartans Henry er að verða betri og betri með hverjum leiknum. Þeir skoruðu líka báðir sem er jákvætt,“ sagði Heimir. 

Sigurður Ragnar: Stoltur af frammistöðu liðsins

„Frammistaðan var bara flott á löngum köflum í þessum leik. Þeir leikmenn sem komu inn í liðið vegna meiðsla lykilleikmanna sýndu það að þá langaði mikið að komast í byrjunarliðið og spiluðu vel í þessum leik. Það var passion í liðinu sem við getum tekið með okkur í næstu leiki,“ sagði Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari Keflavíkur. 

„Við hefðum viljað halda aðeins betur í boltann en það gekk svo sem ágætlega. Leikmenn lögðu allt sem þeir áttu í verkefnið og við gerðum allt sem við gátum til þess að ná í jöfnunarmarkið en það tókst því miður ekki,“ sagði Sigurður Ragnar stoltur. 

„Það var gaman að sjá Viktor Andra sem er mikið efni koma með svona sterka innkomu af varamannabekknum. Það býr mikið í þessum leikmanni líkt og fleirum í liðinu og svona viljum við að varamenn komi inn í leikina þegar kallið kemur. Það var margt jákvætt í þessum leik þrátt fyrir tapið,“ sagði hann. 

Sigurður Ragnar Eyjólfsson var sáttur við frammistöðu lærisveina sinna þrátt fyrir tapið. Vísir/Diego

Af hverju vann FH?

FH var heilt yfir sterkari aðilinn í leiknum og fengu fleiri færi. Af þeim sökum var sigurinn sanngjarn þegar upp var staðið. Þrátt fyrir að völlurinn væri ekki upp á sitt besta náði FH-liðið í þó nokkur skipti að láta boltann rúlla vel á milli kanta og opna vörn Keflavíkurliðsins. 

Hverjir sköruðu fram úr?

Kjartan Henry og Úlfur Ágúst áttu góðan leik í framlínu FH-liðsins og Logi Hrafn Róbertsson inni á miðsvæðinu. Marley Blair átti nokkra góða spretti hjá Keflavíkurliðinu og var oftast í aðalhlutverki þegar eitthvað var að gerast í sóknarleik gestanna.  

Hvað gekk illa?

Osmani átti ekki góða innkomu inn í leikinn en hann lagði upp seinna mark FH í leiknum með slæmri sendingu til baka. Þá fékk Jordan Smylie nokkur færi sem hann hefði klárlega getað nýtt betur. 

Hvað gerist næst?

FH sækir topplið deildarinnar, Víking, heim í Fossvoginn á sunnudaginn kemur en Keflavík fær HK í heimsókn suður með sjó þann sama dag. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira