Erlent

Tíminn einn leiði í ljós hvort Karli farnist vel í embætti

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands var viðstaddur krýningarathöfnina í Westminster í morgun.
Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands var viðstaddur krýningarathöfnina í Westminster í morgun. Vísir/vilhelm

Karl þriðji var krýndur Bretlandskonungur við sögulega, og ákaflega íburðarmikla, athöfn í Westminster í dag. Forseti Íslands, sem viðstaddur var athöfnina, segir að tíminn muni leiða í ljós hvernig Karli farnist í embætti. Konungurinn hafi sett sinn svip á magnþrungna athöfnina í morgun.

Krýningarathöfnin í Westminster Abbey var ákaflega íburðarmikil og stóð í um tvær klukkustundir. Karl byrjaði á því að sverja ensku biskupakirkjunni hollustu sína.

Síðar var komið að einum heilagasta hluta athafnarinnar; skermar voru bornir inn í kirkjuna og Karl smurður á bak við þá, fjarri augum viðstaddra og almennings - og öðlaðist þar með guðlega náð.

Það kom svo í hlut biskupsins af Kantaraborg að færa krýningarkórónuna, ómetanlegan dýrgrip frá árinu 1661, á höfuð Karls.

Kamilla drottning var einnig krýnd við öllu látlausari athöfn. Og að lokinni krýningu héldu konungshjónin til Buckingham-hallar, þar sem þau veifuðu þegnum sínum af svölum.

Forseti Íslands sem boðið var til Westminster í morgun segir krýningu Karls sögulega; aldrei hefur liðið lengra á milli krýningarathafna í Bretlandi. Sjötíu ár eru síðan Elísabet önnur var krýnd.

„Og þegar þegnar konungs sungu saman einum rómi Guð blessi konunginn, God save the king, þá áttaði maður sig kannski helst á mikilfengleik þessarar stundar,“ segir Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.

Guðni segir að tíminn muni leiða í ljós hvernig Karli farnist í embætti. Konungurinn hafi sannarlega sett svip sinn á athöfnina í morgun.

„Karl vildi líka að önnur trúarbrögð fengju einnig, ef svo má segja, sitt pláss en auðvitað voru það hefðir og venjur sem mest bar á núna í Westminster. En við skulum sjá, við skulum óska honum góðs gengis, Karli þriðja konungi, og öllu hans fólki. Svo sjáum við hvað setur.“


Tengdar fréttir

Karl krýndur konungur

Karl þriðji var í dag krýndur konungur Bretlands. Krýningarathöfnin hófst formlega klukkan tíu í morgun en á þriðja þúsund manns var boðið til athafnarinnar. Nokkrir mótmælendur voru handteknir.

Hitti Karl óvænt daginn fyrir krýningu og færði honum kveðju frá Íslandi

Karl þriðji Bretakonungur var krýndur við mikilfenglega athöfn í Westminster Abbey, þá fyrstu sinnar tegundar í sjötíu ár, nú skömmu fyrir hádegi. Þúsundir hafa safnast saman í London til að fylgjast með krýningunni. Íslensk kona sem hitti konunginn fyrir tilviljun í gær lýsir mögnuðu andrúmslofti í borginni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×