Erlent

Segir á­sakanir um nauðgun „fá­rán­legar“ og „ó­geðs­legar“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Trump hefur neitað því að hafa nauðgað Carroll.
Trump hefur neitað því að hafa nauðgað Carroll. AP/Sue Ogrocki

Kviðdómur í New York fékk í gær að heyra upptöku af skýrslutökum yfir Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, sem gerðar voru í aðdraganda dómsmálsins sem nú stendur yfir þar sem Trump er sakaður um nauðgun.

Trump neitaði að mæta í dómsal til að svara spurningum.

Í skýrslutökunum sagði Trump ásakanir E Jean Carroll um að hann hafði nauðgað henni í verslun í New York „fáránlegar“. Hann sagðist aðspurður ekki muna hvenær hann hefði verið giftur hvaða eiginkonu sinni en að hann gæti komist að því.

Þá svaraði hann: „Ég veit það ekki,“ þegar hann var spurður að því hvort hann hefði stundað framhjáhald.

Trump sagðist afar sjaldan hafa lagt leið sína í Bergdorf Goodman, verslunina þar sem nauðgunin er sögð hafa átt sér stað. „Þetta er fáránleg, ógeðsleg saga. Þetta er bara uppspuni,“ sagði hann um ásakanir Carroll.

Það náðist aðeins að spila hluta af upptökunum í gær en restin verður spiluð í dag.

Fyrr um daginn hlýddi kviðdómurinn á vitnisburð Natöshu Stoynoff, blaðamanns hjá tímaritinu People, sem sagði að Trump hefði ýtt henni upp að vegg og kysst hana gegn vilja hennar í Mar-a-Lago árið 2005. Hún hafði ferðast þangað til að skrifa grein um fyrsta brúðkaupsafmæli hans og Melaniu Trump.

Stoynoff lýsti því hvernig hún reyndi að ýta Trump frá sér en hann hefði þrýst sér upp við hana og kysst hana. Hann hefði hætt þegar aðstoðarmaður hans gekk inn í  herbergið. Að sögn Stoynoff reyndi Trump síðar að fá hana til að sofa hjá sér og sagði kynlífið myndu verða „best“.

Að sögn blaðamannsins upplifði hún mikla skömm og niðurlægingu og fór þess á leit við ritstjóra sinn að þurfa ekki að skrifa meira um Trump.

Kviðdómurinn hlustaði einnig á fræga upptöku þar sem Trump segist „sjálfkrafa“ dragast að fallegum konum. „Ég byrja bara að kyssa þær; eins og segull. Bara kyssa. Ég bíð ekki einu sinni,“ segir hann á upptökunni. „Og þegar þú ert stjarna, þá leyfa þær þér það. Þú getur gert hvað sem er. Gripið í píkuna á þeim.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×