Íslenski boltinn

Meistararnir spila heimaleik í Árbæ því KSÍ bannaði skipti

Sindri Sverrisson skrifar
Gísli Eyjólfsson og félagar í Breiðabliki náðu að hefja mótið á Kópavogsvelli en urðu að sætta sig þar við 4-3 tap gegn grönnum sínum úr HK í ótrúlegum leik.
Gísli Eyjólfsson og félagar í Breiðabliki náðu að hefja mótið á Kópavogsvelli en urðu að sætta sig þar við 4-3 tap gegn grönnum sínum úr HK í ótrúlegum leik. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Íslandsmeistarar Breiðabliks spila næsta heimaleik sinn ekki á Kópavogsvelli heldur í Árbæ, í Bestu deild karla í fótbolta.

Framkvæmdir eru að hefjast á Kópavogsvelli þar sem verið er að skipta um gervigras og hafa þær framkvæmdir umtalsverð áhrif á bæði karla- og kvennalið Breiðabliks.

Karlaliðið gat hafið Íslandsmótið á sínum heimavelli en næsta heimaleik, gegn Fram næsta föstudagskvöld, þarf liðið að spila í Reykjavík, nánar tiltekið á Würth-vellinum í Árbæ. 

Eysteinn Pétur Lárusson, framkvæmdastjóri Breiðabliks, segir í samtali við RÚV að Framarar hafi verið tilbúnir að skipta á leikjum og spila þannig heimaleik sinn við Blika næsta föstudag. Því hafi mótanefnd KSÍ hins vegar hafnað vegna þess að þá kæmu of margir heimaleikir í röð hjá Blikum síðar á tímabilinu.

Eftir leikinn við Fram spilar Breiðablik nefnilega þrjá útileiki í röð áður en áætlað er að liðið taki svo á móti KA á Kópavogsvelli 21. maí.

Blikakonur byrja á fjórum útileikjum

Kvennalið Breiðabliks byrjar Íslandsmótið á fjórum útileikjum í röð og spilar sinn fyrsta heimaleik því ekki fyrr en 23. maí, gegn FH. Að sama skapi kemur kafli í júní og júlí þar sem Blikakonur spila fimm heimaleiki í röð, samkvæmt leikjaplaninu á vef KSÍ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×