Íslenski boltinn

Sel­foss sendir tvær heim áður en mótið hefst

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mallory Olsson er farin heim til Bandaríkjanna.
Mallory Olsson er farin heim til Bandaríkjanna. Selfoss

Selfoss hefur ákveðið að senda tvo leikmenn sem áttu að spila með liðinu í Bestu deild kvenna í knattspyrnu í sumar heim á leið. Um er að ræða framherjann Mallory Olsson og markvörðinn Amöndu Leal.

Frá þessu var fyrst greint á Sunnlenska.is. Þar segir einfaldlega: „Bandarísku leikmennirnir Mallory Olsson og Amanda Leal munu ekki leika með kvennaliði Selfoss í knattspyrnu í sumar.“

Þær komu hingað til lands í febrúar en héldu aftur heim á leið aðeins tveimur vikum síðar.

„Þegar við fáum leikmenn erlendis frá, þá er stundum ekki hægt að fá þá á reynslu. Þar af leiðandi eru fyrstu 2-3 vikurnar oft eins og reynslutímabil og í þessum tilvikum þá gekk þetta ekki upp,“ sagði Jón Steindór Sveinsson, formaður knattspyrnudeildarinnar við Sunnlenska.

„Leal óskaði eftir því að losna undan samningi af persónulegum ástæðum og varðandi Olsson þá var komist að samkomulagi að segja upp samningnum hennar,“ bætti Jón við.

Það er hins vegar nóg að gera á skrifstofu Selfyssinga um þessar mundir. Hin unga og efnilega Emelía Óskarsdóttir er gengin í raðir félagsins á láni frá sænska úrvalsdeildarfélaginu Kristianstad. Þá hefur Jimena López samið við Selfoss en hún er landsliðskona frá Mexíkó.

Að lokum staðfest Björn Sigurbjörnsson, þjálfari liðsins, að nýr markmaður væri í sigtinu sem og einn leikmaður til viðbótar gæti bæst í hópinn áður en Besta deildin hefst.

Selfoss fer til Vestmannaeyjar og mætir ÍBV í 1. umferð Bestu deildar kvenna þann 25. apríl næstkomandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×