Erlent

Hneykslaðir for­eldrar hröktu skóla­stjóra burt vegna Davíðs­styttunnar

Kjartan Kjartansson skrifar
Marmaralimur Davíðs fór fyrir brjóstið á foreldrum í Flórída.
Marmaralimur Davíðs fór fyrir brjóstið á foreldrum í Flórída. Vísir/Getty

Skólastjóri grunnskóla í Flórída í Bandaríkjunum sá sér þann kost vænstan að segja af sér vegna kvartana foreldra undan því að börnum þeirra hafi verið sýnt klám þegar þau sáu myndir af Davíðsstyttunni við kennslu í listasögu.

Deilurnar snúast um klassísk listaverk sem ellefu til tólf ára gömlum nemendum voru sýnd í tíma um list endurreisnartímabilsins. Auk styttu Michelangelo af Davíð fræddust nemendurnir um málverk sama listamann af sköpun Adams og „Fæðingu Venusar“ eftir Botticelli.

AP-fréttastofan segir að eitt foreldri barns hafi kvartað undan því að námsefnið væri klámfengið. Tveir aðrir hafi krafist þess að vera látnir vita áður en börnum þeirra yrði kennt sama efni.

Stjórn Tallahassee Classical School, einkaskóla sem fær opinbert fjármagn, stillti Hope Carrasquilla, skólastjóra skólans, upp við vegg vegna kvartananna í vikunni. Carrasquilla sagði af sér.

Nekt Davíðs hefur verið deiluefni í fleiri aldir. Kaþólska kirkjan lét hylja manndóm styttunnar með fíkjulaufi úr málmi á 16. öld þar sem hún taldi nekt svívirðilega.

Uppákoman í skólanum í Flórida kemur upp á sama tíma og ríkisyfirvöld þar standa fyrir átaki til að ritskoða bækur í skólum. Fjöldi bóka sem fjallar um kynhneigð og sögu kynþáttamisréttis í Bandaríkjunum er á meðal þess sem hefur verið tekið úr hillum skólabókasafna og úr skólastofum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×