Hutchins var kvikmyndatökustjóri við Rust, sem framleidd var af Baldwin og var svokölluð kúrekamynd. Verið var að æfa atriði þar sem Baldwin tók upp byssu og miðaði í átt að myndavélinni. Er hann var að æfa sig að taka byssuna úr hulstrinu hljóp skot úr byssunni. Það hæfði Hutchins og banaði henni.
Skotið hæfði einnig Joel Souza, leikstjóra Rust, en hann lifði af.
Baldwin var ákærður í janúar fyrir manndráp af gáleysi vegna banaskotsins. Hannah Gutierrez Reed sem var vopnavörður myndarinnar og átti að sjá til þess að engar byssukúlur væru í þeim skotvopnum sem notuð voru í tökunum, var einnig ákærð.
Afsögn Reeb er annað bakslag saksóknara í Nýju Mexíkó á skömmum tíma, samkvæmt frétt New York Times.
Í síðasta mánuði lækkuðu saksóknarar refsirammann sem Baldwin stendur frammi fyrir en það var gert í ljósi þess að hann hafði verið ákærður á grunni laga sem voru ekki í gildi þegar banaskotið átti sér stað.
Lögin voru samþykkt mánuði eftir að Hutchins dó en við þessar breytingar breyttist möguleg refsing Baldwins, verði hann fundinn sekur, úr því að verða minnst fimm ár í fangelsi, í það að verða mest átján mánuðir í fangelsi.
Reeb var skipuð í embætti sérstaks saksóknara í fyrra en á þeim tíma var hún í kosningabaráttu um sæti á ríkisþingi Nýju Mexíkó. Hún vann þær kosningar en sat áfram í embætti sérstaks saksóknara. Því mótmæltu lögmenn Baldwins og sögðu þeir að það færi gegn stjórnarskrá ríkisins.
Reeb tilkynnti svo í gær að hún ætlaði að segja af sér. Hún sagði ákvörðunina hafa verið erfiða en sagðist sannfærð um að hún væri rétt. Það væri í hag réttlætisins og með því að stíga til hliðar gæti hún tryggt að málið snerist um sönnunargögn og staðreyndir, sem sýndu að öryggisráðstafanir hefðu verið hunsaðar.
Baldwin hefur lýst yfir sakleysi sínu og segist ekki bera ábyrgð á því að raunverulegt byssuskot hafi ratað í byssuna. Hann hafi ekki haft neina ástæðu til að telja mögulegt að svo væri.