Erlent

Sendi­herra Rússa í Banda­ríkjunum kallar upp­á­komuna „ögrun“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Antonov tjáði sig við blaðamenn eftir fund í utanríkisráðuneytinu í Washington í gær.
Antonov tjáði sig við blaðamenn eftir fund í utanríkisráðuneytinu í Washington í gær. AP/Patrick Semansky

Anatoly Antonov, sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum, sagði í samtali við ríkisfréttastofuna RIA í gær að atvik sem átti sér stað í gær þegar rússneskar herþotur höfðu afskipti af bandarískum dróna hefði falið í sér ögrun.

Antonov sagði Rússa ekki sækjast eftir átökum við Bandaríkin heldur vilja eiga í praktískum samskiptum.

Ummælin lét sendiherrann falla eftir að hann var kallaður á teppið af Bandaríkjamönnum.

Samkvæmt ráðamönnum vestanhafs var dróninn á hefðubundnu eftirlitsflugi yfir alþjóðlegu hafsvæði vestur af Krímskaga þegar tvær Su-27 höfðu af honum afskipti. Önnur var sögð hafa losað eldsneyti á hann og hin stuggað við honum.

Dróninn, af tegundinni MQ-9 Reaper, neyddist til að brotlenda í kjölfarið.

Rússneska varnarmálaráðuneytið hefur neitað því að þoturnar hafi notað vopn gegn drónanum, né hafi þær snert hann. Ráðuneytið segir þoturnar hafa verið sendar til að kanna um hvað var að ræða, þar sem dróninn hafi stefnt að landamærum Rússlands.

Hermálayfirvöld í Bandaríkjunum segja Rússa ekki hafa drónann en hafa ekki viljað svara því hvort þeir telji Rússa leita að brakinu til að geta rannsakað það.

Bandaríkjamenn hafa sakað Rússa um að sýna af sér glannalega og ófaglega hegðun. Þá hefur Ben Wallace, varnarmálaráðherra Bretlands, hvatt Rússa til að virða alþjóðlega lofthelgi.

„Ég tel að þetta sé, aftur, dæmi um að Rússar spila ekki samkvæmt relgum, sem er það sem er undir í Úkraínu,“ sagði Richard Marles, varnarmálaráðherra Ástralíu, í morgun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×