Íslenski boltinn

ÍBV sótti sigur í Mosfellsbæ og Þórsarar unnu í markaleik

Smári Jökull Jónsson skrifar
Kristín Erna skoraði tvö mörk fyrir Eyjakonur í dag.
Kristín Erna skoraði tvö mörk fyrir Eyjakonur í dag. Vísir/Bára Dröfn

ÍBV lagði Aftureldingu í A-deild Lengjubikars kvenan í knattspyrnu í dag. Þá rigndi inn mörkum í leik Þórs og Þróttar í Egilshöllinni.

ÍBV og Afturelding mættust í Lengjubikar kvenna í dag en leikið var í Mosfellsbænum. ÍBV leikur í Bestu deild í sumar en Afturelding féll þaðan á síðustu leiktíð.

Það voru Eyjakonur sem voru betri aðilinn í dag. Kristín Erna Sigurlásdóttir kom ÍBV yfir í fyrri hálfleik eftir sendingu Camila Pescatore og Kristín Erna bætti síðan við öðru marki í seinni hálfleik eftir sendingu Olga Sevcova.

Undir lokin skoraði Thelma Sól Óðinsdóttir þriðja mark Eyjakvenna en Afturelding vildi meina að um rangstöðu hefði verið að ræða og var þremur rauðum spjöldum lyft á varamannabekk Mosfellinga í kjölfarið.

Lokatölur 3-0 og ÍBV því með sex stig eftir þrjá leiki í riðlinum. Afturelding er án stiga á botninum.

Í Laugardalnum mættust Þróttur Reykjavík og Þór frá Akureyri í Lengjubikar karla. Liðin voru í tveimur neðstu sætunum í riðli 4 í A-deildinni og leikurinn frekar þýðingarlítill hvað varðar stöðuna í riðlinum.

Leikurinn var hins vegar mikil skemmtun. Þórsarar unnu 4-3 sigur og enda því með sex stig í riðlinum en Þróttur tapaði öllum leikjum sínum í riðlinum.

Alexander Már Þorláksson skoraði tvö mörk fyrir Þór og Ýmir Már Geirsson og Nikola Kristinn Stojanovic skoruðu sitt hvort markið. Guðmundur Axel Hilmarsson skoraði tvö mörk fyrir Þrótt og Andi Morina eitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×