Erlent

Vatnið á jörðinni eldra en sól­kerfið sjálft

Kjartan Kjartansson skrifar
Efnisskífa í kringum stjörnuna V883 Orionis. Samsetning vatnsgufu í henni bendir líkist mjög þeirri sem er í sólkerfinu okkar.
Efnisskífa í kringum stjörnuna V883 Orionis. Samsetning vatnsgufu í henni bendir líkist mjög þeirri sem er í sólkerfinu okkar. ESO/L. Calçada

Rannsóknir stjörnufræðinga á efnisskífu í kringum fjarlæga frumstjörnu rennir stoðum undir þá tilgátu að vatnið á jörðinni sé enn eldra en sólkerfið sjálft. Talið er að vatnið hafi orðið til í geimnum á milli stjarnanna og á endanum borist til jarðarinnar með halastjörnum.

Ekki er vitað með vissu hvernig vatnið sem er undirstaða lífs á jörðinni varð fyrst til eða hvernig það barst til hennar. 

Stjörnufræðingar fundu nýlega það sem þeir kalla týndan hlekk í umhverfi stjörnunnar V883 Orionis. Hún er svonefnd frumstjarna, aðeins um 500 milljón ára gömul, sem er að verða til úr gas- og rykskýi nærri Sverðþokunni í Óríon í um 1.300 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

Í kringum frumstjörnuna er gas- og rykskífa sem úr verður sólkerfi á endanum. Stjörnufræðingar notuðu ALMA-útvarpssjónaukann í Síle til þess að rannsaka vatngufu í skífunni. Þeir komust að því að henni svipaði mjög efnafræðilega til vatns á jörðinni og annars staðar í sólkerfinu okkar, að því er segir í grein á Stjörnufræðivefnum.

Til þess að rekja uppruna vatnsins könnuðu vísindamennirnir hlutfall svonefnda þungs vatns annars vegar og hefðbundins vatns hins vegar. Þungt vatn er vatnssameind sem er samsett úr tvívetni, þyngri samsætu vetnis, og tveimur súrefnisatómum. Venjulegt vatn og þungt vatn verða til við mismunandi aðstæður í efnisskífum og því er hægt að nota hlutfallið á milli þeirra til þess að rekja myndunarstað vatnsins.

Rannsóknir af þessu tagi sýna til dæmis þess að hlutfall vatns og þungs vatns sé svipað í halastjörnum annars vegar og á jörðinni hins vegar. Það þykir benda til þess að vatn hafi að hluta til borist til jarðar við árekstur halastjarna.

„Efnafræðileg uppbygging vatns í skífunni líkist mjög efnauppbyggingu vatns í halastjörnum í sólkerfinu okkar. Þetta rennir stoðum undir þá tilgátu að vatnið í sólkerfinu okkar hafi orðið til milljörðum ára fyrr í geimnum milli stjarnanna, áður en sólin okkar myndaðist, og erfst svo til óbreytt í halastjörnum og jörðinni,“ segir John Tobin, stjörnufræðingur við Útvarpsathuganastofnun Bandaríkjanna og aðalhöfundur greinar um rannsóknina sem birtist í Nature.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×