Erlent

Dæmdir í fangelsi vegna mann­skæða troðningsins

Kjartan Kjartansson skrifar
Suko Sutrisno , öryggisstjóri Arema FC, niðurlútur í réttarsal. Hann var dæmdur í ársfangelsi vegna troðningsins mannskæða. Dómari taldi að hann hefði ekki gert sér grein fyrir skyldum sínum.
Suko Sutrisno , öryggisstjóri Arema FC, niðurlútur í réttarsal. Hann var dæmdur í ársfangelsi vegna troðningsins mannskæða. Dómari taldi að hann hefði ekki gert sér grein fyrir skyldum sínum. EPA/Fully Handoko

Tveir embættismenn knattspyrnuliðs voru dæmdir í fangelsi vegna troðningsins sem myndaðist á leikvangi í Malang í Indónesíu í dag. Á annað hundrað manns lést í troðningnum eftir að lögreglumenn skutu táragasi á aðdáendur sem þustu út á völlinn.

Indónesískur dómstóll dæmdi tvo embættismenn heimaliðsins Arema FC seka um glæpsamlega vanrækslu sem hefði valdið dauða í dag, að sögn breska ríkisútvarpsins BBCRífa niður leik­vanginn í Indónesíu

Formaður skipulagsnefndar liðsins hlaut átján mánaða fangelsisdóm en öryggisstjóri þess eins árs dóm. Saksóknarar fóru fram á sex ára fangelsisdóma yfir þeim.

Dómarinn í málinu sagði að þrátt fyrir að heimaliðið hefði gert ýmsar ráðstafanir í ljósi þess að oft hefði slegið í brýnu á milli stuðningsmanna Arema og erkifjendanna Persebaya Surabaya þá hefði það einnig selt þúsundir miða umfram það sem leikvangurinn rúmaði og hunsað læstar útgönguleiðir.

Gríðarlegur troðningur myndaðist á Kanjuruhan-vellinum þegar lögreglumenn beittu táragasi á aðdáendur Arema sem þustu út á völlinn og aðra í stúkum eftir að liðið tapaði sínum fyrsta leik í áraraðir í október. 

Hundrað þrjátíu og fimm manns létu lífið og um sex hundruð slösuðust. Fjöldi barna var á meðal þeirra látnu. Slysið var það næst versta á knattspyrnuvelli í sögunni.

Auk fulltrúa liðsins sem hlutu dóma í dag eru þrír lögreglumenn ákærðir fyrir að skipa undirmönnum sínum að beita táragasinu. Reglur Alþjóðaknattspyrnusambandsins (FIFA) banna notkun táragass á leikjum.


Tengdar fréttir

Rífa niður leik­vanginn í Indónesíu

Leikvangurinn þar sem yfir 130 manns létu lífið í troðningi í byrjun mánaðar verður rifinn niður og endurbyggður. Meira en fjörutíu börn voru meðal látinna í því sem forseti FIFA hefur kallað „einn svartasta dag fótboltans“.

Að­gerðir lög­reglu sagðar hafa valdið mann­skæðum troðningnum

Táragas sem lögreglumenn létu rigna yfir áhorfendur á knattspyrnuleik í Malang í Indónesíu um helgina er talið kveikjan að miklum troðningi sem varð að minnsta kosti 130 manns að bana. Aðgerðir lögreglu eru sagðar hafa stangast á við innlendar og alþjóðlegar reglur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×