Erlent

Flokkur Kaju Kallas vann kosninga­sigur í Eist­landi

Atli Ísleifsson skrifar
Kaja Kallas (fyrir miðju) fagnaði í gærkvöldi.
Kaja Kallas (fyrir miðju) fagnaði í gærkvöldi. AP

Umbótaflokkur Kaju Kallas, forsætisráðherra Eistlands, vann sigur í eistnesku þingkosningunum sem fram fóru í gær. Flokkurinn hlaut rúmlega 31 prósent atkvæða og verður stæsti flokkurinn á þingi.

Í eistneskum fjölmiðlum kemur fram að rúmlega helmingur kjósenda hafi greitt atkvæði með rafrænum hætti.

Mið-hægriflokkur Kallas tryggði sér 37 af 101 þingsætum að því er fram kemur fram gögnum frá landskjörstjórn. Til að halda völdum þarf Umbótaflokkurinn aftur að mynda meirihluta með einum eða fleiri flokkum á þinginu.

Ekki liggur fyrir við hverja Kallas og félagar munu ræða varðandi stjórnarmyndun en bæði Umbótaflokkurinn og fleiri flokkar hafa útilokað samstarf með hægriöfgaflokkinn EKRE sem hlaut 16 prósent atkvæða og sautján þingmenn.

Kallas og Umbótaflokkur hennar sátu í ríkisstjórn með Kristilegum demókrötum (Isamaa) og Jafnaðarmönnum á síðasta kjörtímabili.

Hin 45 ára Kallas tók við sem forsætisráðherra árið 2021. Hún var Evrópuþingmaður á árunum 20014 til 2018 og tók svo við formennsku í Umbótaflokknum árið 2018.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×