Íslenski boltinn

Þriðji táningurinn frá Ítalíu til Vals

Sindri Sverrisson skrifar
Hlynur Freyr Karlsson er fyrirliði U19-landsliðs Íslands.
Hlynur Freyr Karlsson er fyrirliði U19-landsliðs Íslands. @valurfotbolti

Hlynur Freyr Karlsson er genginn í raðir knattspyrnuliðs Vals. Hlynur, sem verður 19 ára í apríl, kemur til félagsins frá Bologna á Ítalíu þar sem hann lék fyrir U19-liðið. Hann er fyrirliði U19-landsliðs Íslands.

Hlynur Freyr er þriðji táningurinn sem Valur kynnir til leiks á síðustu dögum, og allir eiga þeir sameiginlegt að hafa spilað á Ítalíu á síðasta ári.

Áður hafði félagið fengið Óliver Steinar Guðmundsson, uppalinn hjá Haukum, frá Atalanta og Lúkas Loga Heimisson frá Fjölni en Lúkas var hjá Empoli á síðustu leiktíð.

Þremenningarnir léku sömuleiðis allir með U19-landsliði Íslands á síðasta ári en Hlynur Freyr lék þó langflesta landsleiki af þeim og hefur alls spilað 12 leiki fyrir U19-landsliðið, þar sem hann er fyrirliði.

Hlynur Freyr er samkvæmt tilkynningu Vals bakvörður að upplagi, uppalinn hjá Breiðabliki, en getur einnig leyst fleiri stöður. Hann lék sinn fyrsta leik í efstu deild tímabilið 2020 en fór svo eftir tímabilið til Ítalíu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×