Leikurinn fór fram á Kópavogsvelli en það voru gestirnir sem völdin höfðu á vellinum. Úlfur Ágúst Björnsson kom FH yfir þegar hann skoraði úr þröngu færi vinstra megin í vítateig heimamanna.
Úlfur Ágúst bætti öðru marki gestanna þegar hann kláraði samskonar færi frá hægri nema nú afgreiddi hann boltann í hornið fjær. Staðan 2-0 í hálfleik en í upphafi þess síðari fékk Ásgeir Helgi Orrasson rautt spjald í liði Blika og heimamenn því manni færri það sem eftir lifði leiks.
Steven Lennon skoraði þriðja mark FH eftir fyrirgjöf Olivers Heiðarssonar og gerði í raun út um leikinn. Það var svo varamaðurinn Máni Austmann Hilmarsson sem skoraði fjórða og síðasta mark leiksins. Lokatölur á Kópavogsvelli 0-4 og FH fyrsti sigurvegari Þungavigtarbikarsins.