Íslenski boltinn

Eiginkona Gunnhildar Yrsu samdi líka við Stjörnuna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erin McLeod í leik með Stjörnunni sumarið 2020.
Erin McLeod í leik með Stjörnunni sumarið 2020. Vísir/Hulda Margrét

Erin McLeod hefur samið við Stjörnuna og muna spila með liðinu í Bestu deild kvenna í fótbolta í sumar alveg eins og eiginkona hennar Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir.

Líkt og Gunnhildur Yrsa þá hætti Erin hjá bandaríska félaginu Orlando Pride í upphafi ársins en þær ákváðu að flytja til Íslands eftir mörg ár í bandarísku deildinni.

Gunnhildur Yrsa var búin að semja við Stjörnuna og nú gerir Erin líka samning. Stjarnan sagði frá þessu á miðlum sínum í dag.

Báðar eru þær mjög reyndar landsliðskonur sem koma til að styrkja mikið silfurlið Stjörnunnar frá því í Bestu deildinni í fyrra. Stjörnuliðið er líka á leiðinni í Meistaradeildina í haust.

Erin kemur frá Kanada og hefur spilað fyrir landslið Kanada síðan 2002. Hún lagði síðan landsliðsskóna á hilluna í janúar eftir 21 árs landsliðferil og 119 leiki. Hún vann gullverðlaun með Kanada á Ólympíuleikunum í Tókýo 2020.

Erin hefur á ferlinum leikið fyrir lið eins og Vancouver Whitecaps, Washington Freedom, Dalsjöfors GoIF, Chicaco Red Stars, Houston Dash, FC Rosengård, FF USV Jena, SC Sand, Våxjö DFF og Orlando Pride.

Hún á að baki leiki fyrir Stjörnuna eftir að hafa komið á láni til liðsins sumarið 2020. Þá lék Gunnhildur með Val en nú spila þær saman hjá Stjörnunni í fyrsta sinn.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.