Eftir markalausan fyrri hálfleik, þar sem mark var dæmt af Marcus Rashford, þá skoraði Casemiro fyrsta mark leiksins á 54. mínútu. Eriksen var tekinn af velli skömmu síðar en hann átti erfitt með gang eftir tæklingu Carroll.
eriksen s injury is Bad pic.twitter.com/rgzu7r5fed
— rachel (@xiw4n) January 28, 2023
Þó Carroll hafi á óskiljanlegan hátt sloppið við spjald þá nældi hann sér í tvö gul spjöld með stuttu millibili og var sendur í sturtu á 65. mínútu. Hann fer því í leikbann en það gæti verið að Eriksen missi af fleiri leikjum en framherjinn hárprúði.
Eftir leik sást Eriksen yfirgefa Old Trafford á hækjum en ekki er vitað hversu lengi danski miðjumaðurinn verður frá keppni. Erik Ten Hag, þjálfari Man United, sagði að leikmaðurinn yrði skoðaður nánar í dag og þá ætti að koma í ljós hversu lengi liðið yrði án Eriksen.
Hinn þrítugi Eriksen hefur spilað einkar vel það sem af er tímabili eftir að hafa komið til Man Utd á frjálsri sölu í sumar. Það er ljóst að hans yrði sárt saknað en Man United er bæði þunnskipað á miðsvæðinu sem og að liðið mun spila 10 leiki á næstu 30 dögum eða svo.