Erlent

Hyggjast draga úr losun metangass úr maga jórtur­dýra

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Forsvarsmenn Rumin8 segja mögulegt að minnka losunina sem nemur 85 prósentum.
Forsvarsmenn Rumin8 segja mögulegt að minnka losunina sem nemur 85 prósentum. Getty

Milljarðamæringarnir Bill Gates, Jeff Bezos og Jack Ma, stofnandi Alibaba, hafa fjárfest í nýsköpunarfyrirtæki í Ástralíu, sem hefur það að markmiði að stórdraga úr losun metans sem rekja má til kúaropa.

Já, kúaropa.

Metangas er algengasta gróðurhúsaloftegundin á eftir koldíoxíði og mikið magn þess verður til þegar magar kúa, geita og dádýra melta og brjóta niður trefja á borð við gras.

Dýrin, sem eiga það sameiginlegt að vera með fjórskipta maga og jórtra, losa um það bil 200 lítra af metangasi á dag. 

Fyrirtækið Rumin8, sem þýðir bæði að íhuga og að jórtra, hyggst draga úr losuninni með því að framleiða virka efnið í rauðum þara, sem dregur úr framleiðslu metans í maga dýranna, og setja í dýrafóður.

Samkvæmt fyrirtækinu er stefnt að því að draga úr losun sem nemur 85 prósentum, eða um tvö tonn á skepnu á ári.

Fyrirtækið greindi frá því í gær að það hefði aflað 12 milljóna dala í fjármögnunarlotu sem var leidd af Breakthroug Energy Ventures, sem Bill Gatest stofnaði árið 2015. Hann hefur löngum talað fyrir því að draga úr losun í tengslum við kjötframleiðslu og fjármagnað ýmis verkefni sem miða að því að sporna við hlýnun jarðar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×