Enski boltinn

Carragher sparaði ekki stóru orðin um Everton eftir að félagið rak Lampard

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frank Lampard hefur ekki náð að koma Everton liðinu í gang og fer frá félaginu þar sem það situr í fallsæti.
Frank Lampard hefur ekki náð að koma Everton liðinu í gang og fer frá félaginu þar sem það situr í fallsæti. AP/Zac Goodwin

Jamie Carragher var allt annað en ánægður með þá ákvörðun Everton að reka knattspyrnustjórann Frank Lampard.

Fyrrum leikmaður Liverpool hélt því fram á Sky Sports að Everton væri verst rekna félagið í Englandi.

Carragher hefur haldið þessu fram áður og sagði þá að forráðamenn félagsins hafi heyrt í sér og kvartað. Hann hélt því samt fram aftur í gær og sagðist fullviss um að sú fullyrðing væri rétt hjá sér.

Carragher er mjög ósáttur með hvernig félagið lætur stuðningsmenn sína líta út en þeir voru ekki að kalla eftir nýjum knattspyrnustjóra heldur miklu frekar nýrri stjórn og nýjum eigenda.

Engu að síður þá þurfti Lampard að taka pokann sinn í gær eftir að hafa verið minna en ár við stjórnvölinn.

Lokaleikur Lampard var 2-0 tapleikur á móti West Ham sem var þriðja deildartap Everton liðsins í röð. Liðið situr í nítjánda og næstsíðasta sæti ensku úrvalsdeildarinnar í bullandi fallhættu.

„Enginn þekkir félagið sitt betur en þeirra eigin stuðningsmenn,“ sagði Jamie Carragher í þættinum Monday Night Football á Sky Sports. Hann er ekki í vafa um það að Everton sé versta rekna félagið í landinu.

„Það voru enginn fánar að kalla eftir brottrekstri Frank Lampard heldur var þeim beint gegn eigandanum Farhad Moshiri og stjórninni,“ sagði Carragher.

„Ég hef sagt það áður að Everton sé versta félagið í Englandi. Það var ekki eitthvað skot frá fyrrum leikmanni Liverpool. Ég er að segja þetta sem stuðningsmaður Everton,“ sagði Carragher.

„Þegar ég sagði þetta á sínum tíma þá hafði Everton samband sem ég kunni að meta. Að vera vakandi og tilbúin að verja þitt félag. Ég taldi samt ekki að ég hefði haft rangt fyrir mér og þetta er heldur ekki rangt hjá mér núna,“ sagði Carragher en það má sjá hann ræða þetta hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×