Íslenski boltinn

Keflavík semur við hina sextán marka Linli Tu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Linli Tu sést hér með liðsfélaga í landsliðsverkefni með Kína.
Linli Tu sést hér með liðsfélaga í landsliðsverkefni með Kína. Instagram/@linli_tu)

Markahæsti leikmaður Lengjudeildar kvenna í fótbolta spilar í Bestu deildinni í sumar þrátt fyrir að lið hennar hafi ekki komist upp.

Linli Tu hefur nefnilega gert tveggja ára samning við Keflavík eins og kemur fram á miðlum félagsins.

Linli skoraði sextán mörk í sautján leikjum með liði F/H/L í Lengjudeildinni síðasta sumar en þar á ferðinni sameiginlegt lið Hattar, Fjarðabyggðar og Leiknis.

Hún skoraði mest allra í deildinni eða marki meira en hin bandaríska Murielle Tiernan hjá Tindastól.

Linli skoraði meðal annars fimm mörk á móti Fjölni og tvennur í báðum leikjunum á móti Augnabliki og á móti liði Tindastól sem spilar einmitt í Bestu deildinni í sumar.

Linli Tu er kínversk landsliðskona og missti meðal annars af leik með F/H/L síðasta sumar vegna landsliðsverkefnsins. Hún hefur verið með U17 og U20 liðum Kína og meðal annars sem fyrirliði.

Linli Tu lék í þrjá vetur með Taylor University í Indiana fylki í Bandaríkjunum þar sem hún var með 18 mörk og 8 stoðsendingar í 49 leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×