Enski boltinn

Kompany slær Jóhanni Berg gullhamra

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson hefur leikið með Burnley síðan 2016.
Jóhann Berg Guðmundsson hefur leikið með Burnley síðan 2016. getty/Alex Livesey

Vincent Kompany, knattspyrnustjóri Burnley, nýtur þess út í ystu æsar að vinna með Jóhanni Berg Guðmundssyni.

Kompany tók við Burnley fyrir þetta tímabil. Gengið undir stjórn Belgans hefur verið gott og Burnley er með fimm stiga forskot á toppi ensku B-deildarinnar.

Jóhann Berg hefur spilað vel fyrir Burnley í vetur og Kompany hefur staðfest að félagið sé í viðræðum við íslenska landsliðsmanninn um nýjan samning. Núgildandi samningur Jóhanns við Burnley rennur út eftir tímabilið.

„Eins og venjulega eru alltaf einhverjar viðræður bak við tjöldin,“ sagði Kompany sem er hæstánægður með Jóhann Berg.

„Ég elska að vinna með honum. Þetta snýst um að finna lausn sem allir eru sáttir við. Ég óska þess bara að hann haldi áfram að spila vel fyrir okkur.“

Jóhann hefur komið við sögu í tuttugu deildarleikjum á tímabilinu, skorað tvö mörk og lagt upp þrjú.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×