Erlent

Lúxu­s­kerrur Tate gerðar upp­tækar

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Reynist bræðurnir sekir mun andvirði bifreiðanna fara í að greiða málskostnað og fórnarlömbum bætur.
Reynist bræðurnir sekir mun andvirði bifreiðanna fara í að greiða málskostnað og fórnarlömbum bætur. EPA-EFE/Robert Ghement

Yfirvöld í Rúmeníu hafa gert fjölda lúxusbíla Andrew Tate upptæka. Hann var handtekinn í landinu rétt fyrir áramót og hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan.

Bílarnir sem gerðir hafa verið upptækir eru meðal annars af gerðinni Rolls Royce, Ferrari, Porsche og Mercedes-Benz. Guardian greinir frá því að fimmtán bílar og tíu fasteignir hafi verið gerðar upptækar við rannsókn málsins.

Bílarnir verða í vörslu lögreglu á meðan rannsókn málsins stendur. EPA-EFE/Robert Ghement

Andrew Tate og bróðir hans, Tristan Tate, voru handteknir 30. desember síðastliðinn grunaðir um mansal og nauðganir. Sama sólarhring var kveðinn upp gæsluvarðhaldsúrskurður en dómari taldi hættu á að bræðurnir myndu flýja úr landi.

Lögreglan í Rúmeníu segir bræðurna grunaða um að hafa tælt konur til Rúmeníu þar sem þeim hafi svo verið haldið gegn vilja þeirra. Þeim hafi verið nauðgað og þær þvingaðar með ofbeldi til að framleiða klám.

Andrew Tate, sem er bæði breskur og bandarískur ríkisborgari, var á síðasta ári bannaður á helstu samfélagsmiðlum vegna kvenhaturs. Hann hefur meðal annars sagt að konur beri að hluta til ábyrgð á því að vera nauðgað og að þær tilheyri karlmönnum.

Bræðurnir hafa neitað ásökununum en fyrr í vikunni hafnaði rúmenskur dómstóll áfrýjun Tate á farbanni hans og úrskurðaði að hann þyrfti að sæta gæsluvarðhaldi á meðan rannsókn málsins stæði. Þeir bræður munu því að minnsta kosti dúsa í gæsluvarðhaldi í Rúmeníu þar til 30. janúar næstkomandi.


Tengdar fréttir

Hold­gervingur eitraðrar karl­mennsku slær í gegn á TikTok

Fyrrum bardagakappinn Andrew Tate hefur slegið í gegn á TikTok síðustu vikur, þá sérstaklega meðal ungra karlmanna. Ummæli Tate verður þó að flokka oft á tíðum sem afar umdeild en hann talar oftar en ekki niður til kvenna og ýtir undir eitraða karlmennsku. Fleiri og fleiri ungir karlmenn fylgjast með Tate á hverjum einasta degi.

Engin ára­móta­teiti hjá Tate

Andrew Tate og bróðir hans Tristan hafa verið úrskurðaðir í mánaðarlangt gæsluvarðhald í Rúmeníu. Þeir eru grunaðir um kynlífsmansal og nauðganir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×