Íslenski boltinn

Jesper mun ekki spila á Ís­landi næsta sumar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jesper Juelsgård lék nánast alla leiki Vals á síðasta tímabili.
Jesper Juelsgård lék nánast alla leiki Vals á síðasta tímabili. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Danski varnarmaðurinn Jesper Juelsgård hefur samið við B-deildarliðið Fredericia í heimalandinu. Hann mun því ekki spila fótbolta á Íslandi næsta sumar en eftir að samningi hans við Val var rift opinberaði Jesper að hann væri til í að vera áfram hér á landi ef rétt tilboð bærist.

Juelsgård samdi við Val á síðasta ári og lék alls 26 leiki fyrir félagið í deild, bikar og deildarbikar. Spilaði hann sem vinstri bakvörður eða miðvörður og skoraði alls þrjú mörk með sínum öfluga vinstri fæti.

Hinn 33 ára gamli Jesper hafði samið við Val til meira en eins árs en eftir að Arnar Grétarsson tók við liðinu í haust var ákveðið að láta Juelsgård fara. Hann hafði flutt hingað með fjölskyldu sína og sagðist vera tilbúinn að spila áfram á Íslandi ef rétt tilboð kæmi inn um lúguna.

Það gerðist aldrei og hefur Jesper nú samið við Fredericia. Samningurinn er til 18 mánaða en liðið er í 10. sæti af 12 liðum í dönsku B-deildinni um þessar mundir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×