Enski boltinn

Annar eigenda West Ham látinn

Valur Páll Eiríksson skrifar
David Gold.
David Gold. Nordic photos/AFP

David Gold, annar eigenda West Ham United í ensku úrvalsdeildinni, lést í dag eftir skammvinn veikindi. Hann var 86 ára gamall.

Gold er sagður hafa látist friðsamlega í morgun í faðmi fjölskyldu sinnar. Hann hafði glímt við veikindi um skamma hríð.

Gold hefur átt West Ham ásamt viðskiptafélaga hans til langs tíma, og nafna, David Sullivan, frá árinu 2010. Þeir félagar áttu einnig Birmingham City í 16 ár áður en þeir seldu árið 2009.

„Ég er afar sorgmæddur við að heyra þessi tíðindi,“ segir David Moyes, þjálfari West Ham.

Gold og Sullivan byggðu stóran hluta ríkidæmis síns upp á sölu á klámblöðum í gegnum framleiðslufyrirtækið Gold Star Productions. Gold átti einnig undirfatakeðjuna Knickerbox um hríð. Hann var þá stofnandi og eigandi smásölufyrirtækisins Ann Summers, sem sérhæfir sig í kynlífstækjum og undirfötum, sem er metið á rúmar 100 milljónir punda.

Gold ólst upp í húsi sem staðsett var gegnt Upton Park, fyrrum heimavelli West Ham, en í eignartíð þeirra félaga, Gold og Sullivan, flutti West Ham á nýjan leikvang, Lundúnaleikvanginn, eftir Ólympíuleikana í Lundúnum 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×