Erlent

Kokkur Pútíns segir hvert hús í Bakhmut vera virki

Samúel Karl Ólason skrifar
Yevgeny Prigozhin, við jarðarför eins málaliða Wagner Group, málaliðahóps sem auðjöfurinn rekur.
Yevgeny Prigozhin, við jarðarför eins málaliða Wagner Group, málaliðahóps sem auðjöfurinn rekur. AP

Rússneski herinn á í basli með að brjóta varnir Úkraínumanna við Bakhmut á bak aftur þar sem „hvert hús er virki“, samkvæmt Yevgeny Prigozhin, eiganda Wagner Group málaliðahópsins. Hann og Wagner hafa leitt viðleitni Rússa við að ná tökum á bænum um mánaða skeið en víglínunum þar hefur verið lýst sem „hakkavél“.

Prigozhin tengist Vladimír Pútín, forseta Rússlands, nánum böndum og hefur lengi verið kallaður „kokkur Pútíns“. Hann hefur aukið umsvif sín í rússneskri pólitík í kjölfar innrásar Rússa Í Úkraínu og eru uppi vangaveltur um að hann vilji stilla sér upp sem mögulegum arftaka Pútíns.

Sjá einnig: Kokkur Pútíns játar að eiga Wagner

Auðjöfurinn hefur lagt mikið púður í að reyna að ná Bakhmut og sýna að einkaher hans sé fær um að sækja fram í Úkraínu þó rússneski herinn geti það ekki. Herinn hefur ekki sótt fram í Úkraínu svo máli skiptir í marga mánuði.

Gífurlega harðir bardagar hafa átt sér stað við Bakhmut og eru báðar fylkingar sagðar hafa orðið fyrir miklu mannfalli, þó er það líklega mun meira Rússamegin þar sem þeir hafa þurft að sækja fram gegn varnarlínum Úkraínumanna og þar af leiðandi gera sig berskjaldaða gagnvart stórskotaliði og vélbyssum.

Undanfarnar vikur hafa þó borist fregnir af því að dregið hafi úr stórskotaliðsárásum Rússa við Bakhmut en Rússar eru sagðir eiga við skort á skotfærum að stríða.

Sjá einnig: Selenskí birtist óvænt í „hakkavélinni“

Þá virðast Rússar hafa hætt árásum sínum á Bakhmut og hafa þess í stað lagt meiri áherslu á árásir bæði norður og suður af bænum, með því markmiði að umkringja hann.

Sókn Rússa suður af Bakhmut hefur litlum árangri skilað en þeir sótt lítillega fram í norðri. Hersveitir Rússa eru þó enn sem komið er tiltölulega langt frá því að ná að skera á birgðalínur Úkraínumanna í Bakhmut.

Kort frá hugveitunni Institute for the study of war af stöðunni í Donetsk-héraði má sjá hér að neðan. Þá má sjá gagnvirkt kort hér á vef hugveitunnar.

Prigozhin hefur sent frá sér mikið af myndböndum á undanförnum dögum. Í einu þeirra var hann að skoða kjallara í austurhluta Úkraínu sem var fullur af líkum málaliða Wagner. Í frétt Guardian segir að í myndbandinu hafi mátt sjá líkstafla sem náði manni upp að öxl.

Wagner var stofnað eftir upprunalega innrás Rússa í Úkraínu árið 2014 og hefur verið lýst sem „skuggaher Rússlands“. Málaliðahópurinn hefur verið virkur í Úkraínu, Mið-Austurlöndum og í Afríku en málaliðar Wagner hafa víða verið sakaðir um ýmis ódæði.

Sjá einnig: Reka sendiherra Frakklands úr landi og líta til Rússlands

Yfirvöld í Rússlandi hafa í gegnum árin þrætt fyrir að Wagner tengist rússneska ríkinu en Prigozhin hefur þrátt fyrir það fengið leyfi til að bjóða rússneskum föngum frelsi í skiptum fyrir sex mánaða herþjónustu í Úkraínu. Þúsundir fanga eru sagðir hafa fallið í átökunum við Bakhmut.

Sjá einnig: Tóku eigin málaliða af lífi með sleggju

Í myndbandi sem Prigozhin birti í morgun reyndi hann að útskýra af hverju Rússar ættu í svona miklum erfiðleikum við Bakhmut. Þar sagði hann varnir Úkraínumanna vera of umfangsmiklar. Hvert hús væri virki og finna mætti varnarlínur með tíu metra millibili.

Prigozhin sagði málaliða sína kannski berjast um eitt hús í marga daga eða jafnvel vikur og að því loknu þyrftu þeir að taka næsta hús og svo næsta. Varnarlínurnar væru of margar og ekki gengi að brjóta leið í gegnum þær.

„Ef við segjum fimm hundruð, höfum við örugglega ekki rangt fyrir okkur. Hverja tíu metra má finna nýja varnarlínu,“ sagði Prigozhin.

Einn málaliða Wagner bætti þá við að skortur væri á bryndrekum og skotfærum fyrir stórskotalið. Það þyrfti til að taka Bakhmut.


Tengdar fréttir

Selenskí segir drónaárásir Rússa verða langvarandi

Selenskí Úkraínuforseti sagði í reglulegu ávarpi sínu í nótt að Rússar ætli sér augljóslega að beita írönskum drónum í meira mæli næstu mánuðina til að draga stríðið á langinn og að ætlun þeirra sé að vona að Úkraínumenn missi baráttuþrekið.

Rússar héldu árásum sínum áfram í nótt

Loftvarnaflautur hljómuðu í Kænugarði í gærkvöldi og nótt en samkvæmt heimildarmönnum innan úkraínska hersins skutu loftvarnakerfi niður um það bil tuttugu skotmörk, meðal annars dróna. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×