Erlent

Fyrstu á­rásirnar þegar hálf­tími var liðinn af nýja árinu

Atli Ísleifsson skrifar
Íbúar í Saporisjía yfirgefa sundursprengd heimili sín eftir linnulausar árásir Rússa.
Íbúar í Saporisjía yfirgefa sundursprengd heimili sín eftir linnulausar árásir Rússa. AP

Rússar héldu árásum sínum áfram á Úkraínu í dag og var fyrstu flugskeytunum skotið á höfuðborgina Kænugarð þegar einungis um hálftími var liðinn af nýja árinu. Skotið var á byggingar í tveimur hverfum höfuðborgarinnar og er að minnsta kosti einn látinn.

AP segir frá því að loftvarnaflautur hafi ómað í Kænugarði í nótt þar sem heimamenn fögnuðu komu nýs árs í smærri hópum á heimilum vegna útgöngubanns sem hafði verið komið á.

Talsmaður úkraínska flughersins segir að tekist hafi að skjóta niður að minnsta kosti 45 rússneska dróna á nýársnótt. Á að minnsta kosti einum þeirra hafi verið ritað „Gleðilegt nýtt ár“ á rússnesku.

Talsmaður rússneska hersins segir að árásirnar hafi beinst að drónaverksmiðlum Úkraínuhers og að með þeim hafi tekist að draga úr getu Úkraínumanna til að fremja „hryðjuverkaárásir“ gegn Rússlandi.

Engin hernaðarleg skotmörk eftir

Í færslu á Twitter segir Mykhailo Podolyak, ráðgjafi Volodýmír Selenskí Úkraínuforseta, að árásirnar nú bendi til breytinga í stríðsrekstri Rússa. Segir hann að Rússar virðast ekki lengur með nein hernaðarleg skotmörk á lista og því „reyni þeir að drepa eins marga almenna borgara og hægt er.“

Auk mannfalls í Kænugarði hafa borist fréttir af tveimur látnum Úkraínumönnum í árásum Rússa í Kherson og Saporisjía. Þá eiga um fimmtíu manns að hafa særst í árásum Rússa á nýársnótt.

Volodýmír Selenskí Úkraínuforseti segir að enginn í heiminum muni fyrirgefa Rússum.EPA

Enginn mun fyrirgefa Rússum

Selenskí Úkraínuforseti skrifaði á gamlárskvöld um árásir Rússa þar sem hann sagði meðal annars: „Vélmenni gegn manneskjum… Enginn í heiminum kemur til með að fyrirgefa ykkur þetta. Úkraína mun ekki fyrirgefa.“

Í ávarpi lagði hann jafnframt áherslu á að Úkraínumenn muni halda áfram að berjast þar til að sigur sé í höfn. 

„Við berjumst og höldum áfram að berjast. Við berjumst eins og lið – landið allt, öll héruð. Ég dáist að ykkur öllum. Ég vil þakka hverju ósigandi héraði í Úkraínu,“ sagði Selenskí.


Tengdar fréttir

Fjöldamargar loftárásir á Kænugarð

Fjöldamargar loftárásir hafa verið gerðar á Kænugarð og fleiri borgir Úkraínu í dag. Volodómír Selenskí forseti Úkraínu segir Rússa hafa ætlað sér að eyðileggja nýársfögnuð Úkraínumanna með árásunum. Loftvarnarflautur hafa ómað í höfuðborginni í allan dag. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×