Erlent

Fyrsta skóflustunga tekin að þjóðarhöll Færeyinga

Kristján Már Unnarsson skrifar
Þjóðarhöll Færeyinga, Føroya Arena, á að vera tilbúin árið 2025.
Þjóðarhöll Færeyinga, Føroya Arena, á að vera tilbúin árið 2025. Føroya Arena

Smíði þjóðarhallar er hafin í Færeyjum og var fyrsta skóflustunga tekin daginn fyrir Þorláksmessu. Henni er ætlað að hýsa landsleiki Færeyinga í innanhússíþróttum en einnig tónleika, sýningar og ráðstefnur.

Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá mynd af borgarstjóra Þórshafnar og formanni byggingarnefndar taka fyrstu skóflustunguna þann 22. desember síðastliðinn. Höllin rís í útjaðri höfuðstaðarins, nánar tiltekið ofan bæjarins Hoyvík, sem núna telst úthverfi Þórshafnar. Føroya Arena, eins og hún er kölluð, á að vera tilbúin árið 2025.

Tróndur Sigurdsson, formaður byggingarnefndar, og Heðin Mortensen, borgarstjóri Þórshafnar, tóku fyrstu skóflustungu.Tórshavnar kommuna

Fyrirmyndina sóttu Færeyingar til nýrrar íþróttahallar í bænum Volda í Noregi. Þeir fengu sama norska arkitektinn til að teikna samskonar byggingu og staðfæra hana að færeyskum þörfum.

Henni er ætlað að rúma 2.700 áhorfendur á íþróttakappleikjum og 3.600 tónleikagesti í sætum en allt að 4.600 standandi gesti. Að grunnfleti verður hún 4.600 fermetrar að stærð en gólfrýmið verður alls um 8.400 fermetrar.

Byggingin verður 4.600 fermetrar að grunnfleti.Føroya Arena

Áhersla er lögð á að hún rúmi sem flestar íþróttagreinar sem alhliða íþróttamiðstöð og verði opin almenningi til æfinga og keppni frá morgni til kvölds. Jafnframt verði hún nýtt sem tónlistar-, sýninga- og ráðstefnuhöll.

Heildarkostnaður við bygginguna er áætlaður um fimm milljarðar íslenskra króna og mun Þórshafnarbær greiða 55 prósent kostnaðar. Það sem upp á vantar mun koma frá ýmsum aðilum, þar á meðal danska ríkinu, A.P. Möller-sjóðnum og einkaaðilum.

Starfsmenn verktakans Articon mættir til að hefja verkið.Tórshavnar kommuna

Þjóðarhöllin verður rekin sem sjálfseignarstofnun og fær sveitarfélagið tvo fulltrúa í fimm manna stjórn en hinir þrír koma frá íþróttasambandi Færeyja, samtökum atvinnulífsins og ferðaþjónustunni.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:

Hér má sjá færeyskt kynningarmyndband af Føroya Arena:


Tengdar fréttir

Framkvæmdastjóri HSÍ segir að treysta verði því sem búið sé að segja og lofa

Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri Handknattleikssambands Íslands, segir að það eina sem virki í málefnum nýrrar þjóðarhallar sé að treysta því sem búið sé að segja og lofa. Laugardalshöllin var opnuð á nýjan leik um helgina, en handboltalandsliðin geta ekki leikið þar fyrr en í fyrsta lagi eftir áramót.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×