Enski boltinn

Segir að leik­menn séu ein­fald­lega að spila of marga leiki og það sé hættu­legt til lengdar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Magdalena Eriksson [t.v.] ásamt Pernille Harder og Sam Kerr.
Magdalena Eriksson [t.v.] ásamt Pernille Harder og Sam Kerr. Catherine Ivill/Getty Images

Magdalena Eriksson, varnarmaður Chelsea og sænska landsliðsins, hefur áhyggjur af auknum leikjafjölda sem Alþjóðaknattspyrnusambandið hefur sett á án þess að tala við einn einasta leikmann.

Eriksson skrifar reglulega pistla fyrir enska miðilinn iNews og nýtti það til að viðra áhyggjur sínar varðandi fjölda leikja sem leikmenn þurfa að spila núna. Nefnir hún HM félagsliða og ákvörðun FIFA að stofna slíka keppni kvenna megin án þess að spyrja stakan leikmann út í þá ákvörðun.

Eriksson nefnir fjölda meiðsla hjá bestu leikmönnum Evrópu kvenna megin, má þar til dæmis nefna Arsenal tvíeykið Beth Mead og Vivianne Miedema.

„Ef þú heldur bara áfram að bæta við leikjum þá verður það á endanum of mikið. Fyrir mína parta væri frábært að spila við bestu lið heims ef Chelsea myndi Meistaradeild Evrópu. Að því sögðu, þá verður að hafa samband við leikmenn og leikmannasamtök fyrst.“

Einnig nefnir hin 29 ára gamla Eriksson álagið sem fylgir úrvalsdeild karla í Englandi yfir hátíðarnar. Hún nefnir að það hafi tekið hana að lágmarki 10 daga að jafna sig eftir að Svíþjóð féll úr leik á Evrópumóti kvenna síðasta sumar.

Svo þegar hún sneri til baka var hún að glíma við álagsmeiðsli, eitthvað sem fylgir leikmönnum þegar þeir ná ákveðnum aldri. Nefnir hún meiðsli tvíeykisins og það þurfi að huga að endurheimt kvenna megin jafnt sem karla megin.

„Þetta snýst ekki aðeins um FIFA. Við þurfum að bæta svo margt kvenna megin þegar kemur að álagi og skilningi á líkama kvenna. Hjá Chelsea erum við heppnar að vera með stóran hóp og getum dreift bæði líkamlegu og andlegu álagi. Það eru ekki öll lið svo heppin.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×