Erlent

Lýsti fyrir dómi hvernig hún varð fyrir skot­á­rás af hendi Tory Lanez

Atli Ísleifsson skrifar
Megan Thee Stallion sló í gegn árið 2020 með plötunni Good News.
Megan Thee Stallion sló í gegn árið 2020 með plötunni Good News. AP

Bandaríski rapparinn Megan Thee Stallion lýsti fyrir kviðdómi í gær áfallinu sem hún varð fyrir þegar rapparinn Tory Lanez skaut hana í fótinn í júlí 2020.

„Ég trúi því ekki að ég þurfi að koma hingað og gera þetta,“ sagði Megan Thee Stallion, sem unnið hefur til Grammy-verðlauna, í réttarsal í Los Angeles í gær.

Megan Thee Stallion lýst því hvernig Tory Lanez skaut hana í fótinn að loknu sundlaugarpartýi Kylie Jenner í Hollywood Hills þann 12. júlí 2020.

Í frétt BBC segir að fram hafi komið að hin 27 ára Megan Thee Stallion, sem heitir Megan Pete réttu nafni, hafi móðgað meintan árásarmann, gert lítið úr tónlistarhæfileikum hans, áður en hún krafðist þess að verða hleypt út úr glæsikerru.

Hin þrítugi Tory Lanez, sem heitir Daystar Peterson réttu nafni, á svo að hafa skipað henni „dansa“ og skotið fimm skotum að henni. 

Tory Lanez neitar sök í málinu, en verði hann fundinn sekur kann hann að eiga yfir höfði sér allt að 23 ára fangelsi.

Daystar Peterson, betur þekktur sem Tory Lanez, í Los Angeles í september síðastliðinn.EPA

„Ég er í áfalli. Ég er hrædd. Ég heyri að byssunni er hleypt af, ég trúi því ekki að hann sé að skjóta á mig,“ sagði Megan Thee Stallion í réttarsal í gær, að því er fram kemur í LA Times. 

„Ég óska þess að hann hefði bara skotið mig og drepið ef ég hefði vitað að ég hefði þurft að ganga í gegnum þennan hrylling.“

Megan Thee Stallion sagði einnig að Tory Lanez hafi boðið henni milljón dala greiðslu gegn því að tilkynna ekki um árásina, þar sem hann hafi verið á skilorði vegna vopnalagabrots á þessum tíma.

Megan Thee Stallion greindi lögreglu upphaflega frá því að hún hafi skorið sig á glerbroti og að það skýrði sárin á fætinum. Í gær sagðist hún hins vegar hafa logið til að byrja með þar sem hún hafi haft áhyggjur af viðbrögðum lögreglu, sér í lagi vegna umræðunnar um kynþáttahatur innan lögreglunnar sumarið 2020.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×