Erlent

Annar fangi tekinn af lífi í tengslum við mót­mælin í Íran

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá mótmælum gegn aftökum á írönskum mótmælendum sem voru haldin í Róm um helgina.
Frá mótmælum gegn aftökum á írönskum mótmælendum sem voru haldin í Róm um helgina. Vísir/EPA

Írönsk stjórnvöld tóku af lífi annan mann í tengslum við umfangsmikil mótmæli í landinu. Maðurinn var sakaður um að hafa stungið tvo varaliðsmenn til bana og reynt að flýja. Mannréttindasamtök saka klerkastjórnina um sýndaréttarhöld sem sé ætlað að ógna mótmælendum.

Majidreza Rahnavard, 23 ára, var hengdur á almannafæri í Mashahd, næstfjölmennustu borg Írans, í morgun. Hann var sakfelldur fyrir að heyja „stríð gegn guði“ með því að stinga tvo varaliðsmenn íranska byltingarvarðarins til bana og særa fjóra aðra 17. nóvember, að sögn AP-fréttastofunnar.

Í íranska ríkissjónvarpinu voru sýndar myndir úr réttarsal þar sem Rahnavard sagðist hafa lagt fæð á öryggissveitirnar eftir að hann sá myndbönd af því hvernig þær drápu og börðu mótmælendur á samfélagsmiðlum.

Aftakan á Rahnavard átti sér stað aðeins fjórum dögum eftir að klerkastjórnin lét hengja Mohsen Shekari, annan ungan mótmælanda. Shekari var sakfelldur fyrir að særa öryggisvörð með hnífi og að loka götu í Teheran í mótmælaaðgerðum.

Mannréttindasamtökin Amnesty International segja að írönsk stjórnvöld sækist nú eftir dauðarefsingu yfir 21 manni sem hefur verið handtekinn í tengslum við mótmælin sem blossuðu upp í september. Sýndarréttarhöldum yfir þeim sé ætlað að slá ótta í brjóst þeirra sem taka þátt í mótmælaaðgerðum.

Kveikjan að mótmælunum var dauði Möhsu Amini, 22 ára gamallar kúrdískrar konu, í haldi siðgæðislögrelunnar í Teheran. Yfirvöld segja að hún hafi látist af völdum veikinda en fjölskylda hennar fullyrðir að hún hafi verið barin til dauða.


Tengdar fréttir

Fyrsti mótmælandinn tekinn af lífi í Íran

Yfirvöld í Íran tóku í morgun fyrsta manninn af lífi sem hefur verið dæmdur vegna umfangsmikilla mótmæla þar í landi síðustu vikurnar. Mohsen Shekari var hengdur en aðrir sem hafa verið handteknir vegna mótmælanna standa einnig frammi fyrir dauðadómi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×