Enski boltinn

Ten Hag vill sóknar­mann í janúar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Erik ten Hag og markvörðurinn David De Gea. Engar líkur eru á að hann muni spila frammi þó liðinu vanti sárlega framherja.
Erik ten Hag og markvörðurinn David De Gea. Engar líkur eru á að hann muni spila frammi þó liðinu vanti sárlega framherja. EPA-EFE/ANDREW YATES

Erik ten Hag, þjálfari Manchester United, vill fá inn sóknarmann í stað Cristiano Ronaldo þegar félagaskiptaglugginn opnar í janúar.

Ronaldo yfirgaf Man United eins og frægt er orðið rétt áður en HM í Katar hófst í nóvember. Portúgalinn er enn án félags og virðist eina liðið sem hefur opinberlega áhuga á að fá hann í sínar raðir kemur frá Sádi-Arabíu.

Ten Hag sagði við fjölmiðla að hann hefði viljað halda Ronaldo í Manchester allt þangað til hann fór í hið fræga viðtal hjá Piers Morgan. Eftir það var ekki annað hægt en að leyfa Ronaldo að yfirgefa félagið.

Þó svo að Anthony Martial sé búinn að ná sér af meiðslum þá vill Ten Hag fá inn sóknarmann til að auka breiddina í framlínu liðsins. Ten Hag vildi fá Cody Gakpo síðasta sumar en þessi 23 ára gamli landsliðsmaður Hollands var frábær í Katar. Talið er að hann sé á óskalista Man Utd.

„Við munum gera allt í okkar valdi til að festa kaup á réttum leikmanni. Ég get ekki tjáð mig um einstaka leikmenn. Ég myndi aldrei gera það, leikmann hafa samninga og ég virði það.“

Hvort forráðamenn Man United séu tilbúnir að opna veskið enn á ný kemur í ljós í janúar en félagið eyddi háum fjárhæðum síðasta sumar og það er alls óvíst hvort Ten Hag fái vilja sínum framgengt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×