Fótbolti

Ron­aldo fljótur inn í klefa eftir magnaðan sigur Portúgals

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Cristiano Ronaldo spilaði rétt rúmlega 20 mínútur gegn Sviss og var fljótur inn í klefa eftir leik.
Cristiano Ronaldo spilaði rétt rúmlega 20 mínútur gegn Sviss og var fljótur inn í klefa eftir leik. Visionhaus/Getty Images

Cristiano Ronaldo virtist ekki hafa of mikinn áhuga á að fagna með liðsfélögum sínum eftir magnaðan 6-1 sigur Portúgals á Sviss í 16-liða úrslitum HM í fótbolta ef marka má myndbandsupptöku sem nú fer líkt og eldur um sinu á samfélagsmiðlum.

Ronaldo hefur verið mikið í fréttum undanfarið eins og hans er von og vísa. Það kom þó á óvart þegar byrjunarlið Portúgals fyrir leikinn gegn Sviss var tilkynnt en þar var enginn Ronaldo sjáanlegur, hann var meðal varamanna.

Í hans stað kom Gonçalo Ramos inn í byrjunarliðið og sá átti stórleik. Ramos skoraði þrennu í ótrúlegum 6-1 sigri sem þýðir að Portúgal mætir Marokkó í 8-liða úrslitum HM.

Staðan var orðin 5-1 þegar Ronaldo kom inn af bekknum en þá var stundarfjórðungur eftir af leiknum. Hinn 37 ára gamli framherji kom boltanum í netið en markið dæmt af vegna rangstöðu. Það var hins vegar annar varamaður, Rafael Leão, sem skoraði sjötta mark leiksins.

Þegar dómari leiksins flautaði til leiksloka fögnuðu Portúgalar eðlilega vel og lengi, að Ronaldo undanskildum það er að segja. Myndbandsupptaka frá vellinum sýnir hann ganga einan að stuðningsfólki liðsins, klappa stuttlega, og ganga svo einan af velli.

Portúgal mætir Marokkó í 8-liða úrslitum HM þann 10. desember næstkomandi og eftir frammistöðu liðsins gegn Sviss verður að teljast líklegt að Ronaldo þurfi að sætta sig við áframhaldandi bekkjarsetu.


Tengdar fréttir

Portúgal flaug inn í átta liða úrslitin

Portúgal varð í kvöld seinasta þjóðin til að tryggja sér sæti í átta liða úrslit heimsmeistaramótsins í Katar er liðið vann öruggan 6-1 sigur gegn Sviss. Gonçalo Ramos, sem kom inn í byrjunarliðið fyrir Cristiano Ronaldo, stal senunni og skoraði þrennu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.