Volódómír Selenskí forseti virðir fyrir sér skemmdir af völdum árása Rússa. Forsetaskrifstofa Úkraínu
Stjórnvöld í Úkraínu þurfa að grípa til þess að taka rafmagnið af stórum svæðum tímabundið til þess að raforkukerfið sem eftir stendur í landinu fari ekki á hliðina.
Þetta sagði Volodomír Selenskí úkraínuforseti í sínu daglega ávarpi í gærkvöldi eftir árásir gærdagsins. Rússar skutu þá fjölmörgum flugskeytum á Úkraínu og héldur árásirnar áfram fram eftir nóttu.
Úkraínska hernum tókst þó að skjóta meirihluta flauganna niður áður en þær hittu skotmörk sín. Fjórir eru sagðir hafa látið lífið í árásum gærdagsins en auk þess að lama orkuinnviði féllu nokkrar sprengjur á íbúarhúsnæði í grennd við Zaporizhzhia í nótt án þess að nokkur hafi látið lífið.
Yfirvöld í höfuðborginni Kænugarði hafa varað íbúa við að líklega þurfi að taka rafmagnið af um það bil helmingi svæðisins næstu daga.
Nú er komið frost víða í Úkraínu og milljónir manna eru án rafmagns eða rennandi vatns. Óttast er að fjöldi fólks eigi því eftir að deyja af völdum ofkælingar.
Utanríkisráðherrar Atlantshafsbandalagsins hétu því í gær að Úkraína fengi á endanum inngöngu í bandalagið og að frekari hernaðaraðstoð yrði send til Úkraínumanna. Því var einnig lofað að bandalagið myndi aðstoða Úkraínumenn við uppbyggingu að stríðinu loknu.
Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.