Erlent

Þrjár bréf­sprengjur á Spáni á einum sólar­hring

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögreglumenn standa vörð nærri úkraínska sendiráðinu í Madrid þar sem bréfsprengja sprakk í höndum starfsmanns í gær.
Lögreglumenn standa vörð nærri úkraínska sendiráðinu í Madrid þar sem bréfsprengja sprakk í höndum starfsmanns í gær. AP/Paul White

Bréfsprengjur hafa verið sendar á þrjá staði á Spáni síðasta sólarhringinn, nú síðast til herflugvallar þaðan sem fylgst er með gervihnöttum. Starfsmaður úkraínska sendiráðsins í Madrid særðist lítillega þegar bréfsprengja sprakk þar í gær.

Grunsamlegt umslag fannst við gegnumlýsingu í gervihnattamiðstöð herflugvallarins í Torrejón de Ardoz í nágrenni höfuðborgarinnar Madridar á fjórða tímanum að staðartíma í nótt. Umslagið var sagt líkjast þeim sem voru send til úkraínska sendiráðsins í Madrid og vopnaverksmiðju í Zaragoza í gær. Lögreglan rannsakar nú hvort tengsl séu á milli bréfasendinganna.

Vopnaverksmiðja Instalaza í Zaragoza á miðjum Spáni framleiðir meðal annars skotvörpur, handsprengjur og nætursjónauka sem hún flytur út til 35 landa, að sögn spænska ríkisútvarpsins RTVE.

Spænsk yfirvöld sendu 1.370 handsprengjuvörpur af sömu tegund og Instalaza auglýsir á vefsíðu sinni, léttvélbyssur og 700.000 skothylki af ýmsum hlaupvíddum til Úkraínu í mars. Það var ein fyrsta vopnasendingin til landsins eftir innrás Rússa í febrúar.

Herða gæslu við sendiráðið

RTVE segir að landsréttur Spánar rannsaki bréfsendinguna til úkraínska sendiráðsins sem hryðjuverk og innanríkisráðuneytið hefur lýst því yfir að öryggisgæsla við það verði hert í kjölfar tilræðisins.

Oleh Nikolenko, talsmaður úkraínska utanríkisráðuneytisins, segir að bréfið hafi borist með almennum pósti til sendiráðsins. Bréfið hafi sprungið í höndum skrifstofustjóra sendiráðsins. Hann hafi slasast lítillega en aðrir starfsmenn hafi sloppið ómeiddir. Lögregla lýsti atvikinu sem „áköfum bruna“.

„Hverjum þeim sem stendur að baki þessari sprengingu mun ekki auðnast að hræða úkraínska erindreka eða stöðva daglegar tilraunir þeirra til þess að styrkja Úkraínu og svara árásum Rússa,“ sagði Nikolenko við AP-fréttastofuna.


Tengdar fréttir

Starfsmaður sendiráðs Úkraínu særður eftir bréfsprengju

Einn starfsmaður úkraínska sendiráðsins í Madrid, höfuðborg Spánar, er sagður særður eftir bréfsprengja sprakk þar um miðjan dag. Lögreglan virkjaði viðbúnað vegna hryðjuverka og sprengjusérfræðingar voru sendir á staðinn.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.