Erlent

Áttu íbúð í blokk sem tengist rússneskri leyniþjónustu

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá heimili hjónanna í úthverfi Stokkhólms.
Frá heimili hjónanna í úthverfi Stokkhólms. EPA/Fredrik Sandberg

Rússnesku hjónin svo voru handtekin í Svíþjóð í vikunni fyrir njósnir, áttu íbúð í fjölbýlishúsi í Moskvu þar sem margir starfsmenn GRU-leyniþjónustu rússneska hersins, hafa einnig átt íbúðir. Hjónin eru einnig sögð tengjast fyrrverandi yfirmanni sænskrar leyniþjónustu fjölskylduböndum.

Hjónin voru handtekin á þriðjudaginn í umfangsmikilli aðgerð í úthverfi Stokkhólms. Maðurinn er grunaður um umfangsmiklar njósnir í Svíþjóð og í öðru ríki sem ekki hefur verið tilgreint. Konan er grunuð um að hafa aðstoðað hann en henni var sleppt úr haldi á fimmtudaginn, samkvæmt frétt VG í Noregi.

Sjá einnig: Njósnararnir í Stokkhólmi eru rússnesk hjón á sjötugsaldri

Saksóknarar í Svíþjóð lýstu því yfir í gær að maðurinn væri grunaður um að tengjast GRU en ekki var farið nánar út í það.

Rannsakendur Bellingcat hafa fundið gögn sem lekið var úr opinberum gagnagrunnum í Rússlandi, sem vísa til þess að árið 1999, skömmu áður en þau fluttu til Svíþjóðar, áttu hjónin íbúð í fjölbýlishúsi að Zorge-götu 36 í Moskvu. Það fjölbýlishús tengist GRU, sem er leyniþjónusta rússneska hersins og sér um njósnir og aðrar aðgerðir Rússa á erlendri grundu.

Eliot Higgins er stofnandi rannsóknarsamtakanna Bellingcat.

Útsendarar GRU eru meðal annars grunaðir um að hafa eitrað fyrir Sergei Skripal og dóttur hans í Salisbury í Englandi, fjölmargar tölvuárásir og skemmdarverk.

Sjá einnig - Ótrúleg slóð útsendara: Banatilræði, skemmdarverk og milliríkjadeilur

Meðal þeirra sem hafa átt íbúir í fjölbýlishúsinu eru Denis Sergeev, sem er grunaður um að hafa komið að Skripal-eitruninni. Herforinginn Andrey Averyanov átti einnig íbúð í húsinu en hann stýrir sérstakri deild GRU sem ber nafnið 29155 en meðlimir hennar sérhæfa sig í undirróði, skemmdarverkum og pólitískum morðum.

Sérfræðingur segir í samtali við VG að algengt sé að útsendarar GRU séu skráðir til heimils í fjölbýlishúsinu þegar þeir eru sendir erlendis.

Þá segir VG að hjónin hafi átt nokkur fyrirtæki í gegnum árin. Eitt þeirra hafi einnig verið í eigu fyrrverandi ofursta hjá GRU sem sé nú sestur í helgan stein. Hann var rekinn frá Frakklandi árið 1981 fyrir njósnir.

VG segir ennfremur að hjónin tengist einnig fyrrverandi yfirmanni sænskrar leyniþjónustu fjölskylduböndum. Það hafi þó gerst eftir að viðkomandi maður settist í helgan stein og mun hann aldrei hafa hitt hjónin í persónu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×