Erlent

Njósnararnir í Stokkhólmi eru rússnesk hjón á sjötugsaldri

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá húsi rússnesku hjónanna í úthverfi Stokkhólms.
Frá húsi rússnesku hjónanna í úthverfi Stokkhólms. EPA/Fredrik Sandberg/TT SWEDEN OUT

Lögregluþjónar og hermenn handtóku í morgun rússnesk hjón í úthverfi Stokkhólms í Svíþjóð. Klukkan sex að staðartíma í morgun var tveimur herþyrlum flogið að heimili hjónanna og út streymdu menn sem handtóku þau en hjónin eru grunuð um njósnir í Svíþjóð og öðru ríki í um tíu ár.

Hinir meintu njósnarar sem handteknir voru í Svíþjóð í morgun voru hjón frá Rússlandi. Þau eru bæði á sjötugsaldri, samkvæmt frétt SVT.

Maðurinn er grunaður um umfangsmiklar njósnir í Svíþjóð og í öðru ríki sem ekki hefur verið tilgreint. Konan er grunuð um að hafa aðstoðað hann.

Í yfirlýsingu frá öryggislögreglu Svíþjóðar sem birt var í morgun segir að húsleit hafi verið gerð og að þriðja manneskjan hafi verið færð til yfirheyrslu vegna rannsóknarinnar. Sú rannsókn er sögð hafa staðið yfir um nokkuð skeið með aðstoð annarra löggæsluembætta og sænska hersins.

Blaðamenn Aftonbladet hafa bankað upp á hjá nágrönnum hjónanna í dag. Haft er eftir þeim að þau virðist hafa lifað rólegu lífi. Þau hafi ekki verið mikið fyrir spjall en hafi heilsað fólki og verið kurteis.

Þá eru hjónin sögð hafa unnið við inn- og útflutning en velta fyrirtækisins er sögð hafa verið um og yfir þrjátíu milljónir sænskar krónur á ári. Það samsvarar um fjögur hundruð milljónum króna.

Heimildir Aftonbladet herma að maðurinn hafi notað fyrirtækið til njósna sinna. Það var til rannsóknar hjá skattyfirvöldum í Svíþjóð árið 2016 og var meðal annars gerð húsleit í húsnæði fyrirtækisins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×