Erlent

Græn­lendingar breyta klukkunni á næsta ári

Atli Ísleifsson skrifar
Frá grænlensku höfuðborginni Nuuk.
Frá grænlensku höfuðborginni Nuuk. Getty

Klukkunni verður breytt á Grænlandi á næsta ári og verður tekið upp nýtt tímabelti sem kallast UTC-2.

Með breytinginni færist Grænland klukkutíma nær Evrópu og þar með Danmörku og einum klukkutíma fjær Norður-Ameríku. Þannig verður þriggja tíma munur í báðar áttir, þó að tveimur tímum komi til með að muna á klukkunni í Grænlandi og á Íslandi.

Þetta var ákveðið eftir að grænlenska þingið samþykkti tillögu landsstjórnar þessa efnis. Málið hefur lengi verið til meðferðar í þingnefnd.

Ástæða þess að málið hefur lengi verið til meðferðar í þinginu er að stjórnmálamenn hafa um nokkurt skeið haft áhyggjur af því hvaða áhrif breyting sem þessi muni hafa á lýðheilsu.

Breytingin mun hafa það í för með sér að það verði myrkur lengur á morgnana og sömuleiðis síðdegis og kvöldin. Í frétt Sermitsiaq.AG segir að ekki hafi verið framkvæmd rannsókn á Grænlandi á því hvaða áhrif þetta kunni að hafa þó að litið hafi verið til rannsókna á Íslandi.

Breytingin mun taka gildi þann 25. mars næstkomandi klukkan 22 þegar sumartími gengur í garð og tímabeltið UTC-2 verður tekið upp. Ólíkt því sem verið hefur mun vetrartími svo ekki taka gildi í október 2023.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.