Erlent

Selenskí segir Rússa hafa gert 400 árásir í austurhluta landsins í gær

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Úkraínuforseti segir harðast barist í Donetsk. Myndin sýnir Úkraínumenn berjast nærri Bakhmut.
Úkraínuforseti segir harðast barist í Donetsk. Myndin sýnir Úkraínumenn berjast nærri Bakhmut. AP/LIBKOS

Vólódímir Selenskí Úkraínuforseti sagði í daglegu ávarpi sínu í gærkvöldi að Rússar hefðu gert 400 loftárásir á skotmörk í austurhluta landsins frá því um morguninn. Harðast væri barist í Donetsk en Úkraínumenn væru að sækja fram í Luhansk.

Bandaríkjamenn segja auknar loftárásir Rússa meðal annars ætlað að gera Úkraínumenn uppiskroppa með skotfæri fyrir loftvarnakerfi sín.

Breska varnarmálaráðuneytið segir Rússa nú vinna að því að efla varnir sínar umhverfis Svatove í Luhansk. Ráðuneytið segir leiðtoga Rússlands líklega vilja forgangsraða því að halda Svatove en skortur á þjálfuðum hermönnum og skotfærum séu að valda þeim vandræðum.

Alþjóðakjarnorkumálastofnunin mun meta stöðu mála í Zaporizhzhia-kjarnorkuverinu í dag, eftir árásir á verið yfir helgina. Byggingar og innviðir í kjarnorkuverinu eru sagðir hafa skemmst í árásunum en þær eru þó ekki taldar hafa ógnað öryggi versins.

Rafael Grossi, framkvæmdastjóri IAEA, segir menn hins vegar „leika sér að eldinum“ með árásum umhverfis kjarnorkuverið.

Mykhaylo Podolyak, einn aðalráðgjafi Úkraínuforseta, segir tilraunir Vesturlanda til að koma Úkraínumönnum og Rússum að samningaborðinu undarlegar í ljósi sigra Úkraínumanna á vígvellinum. Hann sagði það myndu þýða uppgjöf þess sem hefði nú yfirhöndina.

Frakkar hafa sent tvö eldflaugakerfi til viðbótar til Úkraínu og þá hafa nýkjörinn stjórnvöld á Ítalíu lagt fram frumvarp um stuðning við Úkraínu út næsta ár.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×