Enski boltinn

Harry Kane óttast hvorki gult spjald né sekt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Kane sést hér bera „OneLove“ fyrirliðabandið í leik með enska landsliðinu.
Harry Kane sést hér bera „OneLove“ fyrirliðabandið í leik með enska landsliðinu. Getty/Nick Potts

Harry Kane ætlar ekki að láta hótanir Alþjóða knattspyrnusambandsins stoppa sig í því að nota „OneLove“ fyrirliðabandið í fyrsta leik enska landsliðsins á HM í Katar í dag. Hann staðfesti á blaðamannafundi fyrir leikinn á móti Íran að hann vilji bera bandið á HM

Uppfært: Enska knattspyrnusambandið auk knattspyrnusambanda Belgíu, Danmerkur, Þýskalands, Hollands og Sviss hafa sent frá sér yfirlýsingu. Þau ætla ekki að setja leikmenn sína í þá erfiðu stöðu að eiga á hættu að vera refsað fyrir að bera fyrirliðabönd til stuðnings fjölbreytileika. Því hafa fyrirliðarnir verið beðnir um að nota hefðbundin fyrirliðabönd, ekki þau litríku. Nánar hér.


Forráðamenn FIFA hafa ítrekað það í aðdraganda heimsmeistaramótsins að það sé stranglega bannað að nota þessi fyrirliðabönd og fyrirliðarnir megi aðeins nota þau fyrirliðabönd sem þeir fá frá FIFA.

Alls ætluðu níu landslið að láta fyrirliða sinn leiða liðið með „OneLove“ fyrirliðaband en þar á meðal eru Þýskaland, Holland og Belgía. Öll sendu þau FIFA og UEFA bréf þar sem kom fram að fyrirliðarnir myndu mæta með bandið sem er svo hræðilegt í augum Katarbúa.

Allir fyrirliðarnir ætla að gera það til að vekja athygli á misrétti, brotum á mannréttindum og skort á fjölbreytileika hjá gestgjöfum HM í ár í Katar. FIFA er hins á fullu í útréttingum fyrir yfirvöld í Katar.

Öll samböndin bjuggust við að fá sekt fyrir brot á banninu en núna hefur bæst við önnur hótun um að allir fyrirliðar með „OneLove“ fyrirliðabandið myndu fá gult spjald í upphafi leiks fyrir að bera það.

Það er ljóst að fyrirliðarnir væru fljótir að koma sér í leikbann ef þeir byrja alla leiki á HM á því að fá gula spjaldið fyrir utan að spjald á næstu níutíu mínútum myndi auðvitað þýða rautt spjald.

„Ég held að við höfum gert öllum ljóst að við sem lið, við sem starfslið og við sem samband viljum nota þetta fyrirliðaband. Ég veit að knattspyrnusambandið er að tala við FIFA þessa stundina og ég er viss um að við höfum ákvörðun fyrir leikinn á morgun. Það fer ekkert á milli mála að við viljum bera þetta fyrirliðaband,“ sagði Harry Kane á blaðamannafundi fyrir leikinn.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.