Erlent

Hækka við­búnaðar­stig pólska hersins eftir sprengingarnar

Kjartan Kjartansson skrifar
Mariusz Blaszczak, varnarmálaráðherra Póllands, þegar hann mætti til fundar þjóðaröryggisráðs Póllands eftir tíðindin af sprengingunum í austanverðu landinu í kvöld.
Mariusz Blaszczak, varnarmálaráðherra Póllands, þegar hann mætti til fundar þjóðaröryggisráðs Póllands eftir tíðindin af sprengingunum í austanverðu landinu í kvöld. Vísir/EPA

Pólska ríkisstjórnin tilkynnti í kvöld að viðbúnaðarstig hersins hefði verið hækkað eftir að tveir létust af völdum flugskeyta sem komu yfir landamærin að Úkraínu í dag. Forseti Úkraínu sakar Rússa um að stigmagna átökin.

Tveir féllu í sprengingum í bænum Przewodów í austanverðu Póllandi nærri landamærunum að Úkraínu síðdegis í dag. AP-fréttastofan hafði eftir heimildarmanni innan bandarísku leyniþjónustunnar að rússnesk flugskeyti hefðu hæft bæinn en það hefur enn ekki verið staðfest. Rússneska varnarmálaráðuneytið hafnaði því að rússnesk vopn hefðu valdið dauða fólksins.

Að loknum neyðarfundi pólsku ríkisstjórnarinnar í kvöld greindi talsmaður hennar frá því að viðbúnaðarstig hersins hefði verið hækkað. Rannsókn stæði yfir á sprengingunum.

Þá hafi Andrzej Duda, forseti, rætt við Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins, í kvöld. Ríkisstjórnin skoði hvort hún vilji virkja fjórðu grein stofnsáttmála NATO um að aðildarríkin stingi saman nefjum þegar eitt þeirra telur öryggi sínu ógnað. Stofnsáttmáli NATO leggur einnig árás á eitt aðildarríki að jöfnu við árás á þau öll.

Stoltenberg staðfesti á Twitter að hann hefði rætt við Duda. NATO fylgist nú með ástandinu. Lagði hann áherslu á að komist yrði að því sanna í málinu. Hvíta húsið staðfesti einnig í kvöld að Joe Biden Bandaríkjaforseti hefði rætt við Duda um sprenginguna.

Volodýmýr Selenskíj, forseti Úkraínu, sakaði Rússa um að ráðast beinlínis á Pólland í kvöld. Aðeins hafi verið tímaspursmál þar til hryðjuverk Rússa bærust yfir landamæri Úkraínu.

„Þetta er rússnesk flugskeytaárás á sameiginlegt öryggi. Þetta er mjög alvarleg stigmögnun. Við verðum að bregðast við,“ hefur breska ríkisútvarpið BBC eftir honum.

Rússar stóðu fyrir umfangsmiklum flugskeytaárásum á Úkraínu í dag, einhverjum þeim mestu frá upphafi innrásar þeirra í febrúar. Umfangsmikið rafmagnsleysi er víða um landið. Rússneskar eldflaugar eru einnig sagðar hafa hæft orkuinnviði í Moldóvu.

Eystrasaltsríkin Eistland og Litháen brugðust við fréttunum með því að lýsa yfir samstöðu með Pólverjum og ítrekað að verja þyrfti landsvæði NATO. Sauli Niinistö, forseti Finnlands, hvatti til stillingar. Fréttirnar frá Póllandi væru áhyggjuefni en að nauðsynlegt væri að staðfesta hvað hefði raunverulega gerst.

Miklar vangaveltur hafa verið um hvort að flugskeytin sem lentu í Póllandi hafi verið rússnesk eða úkraínskar loftvarnarflaugar. Dmytró Kúleba, utanríkisráðherra Úkraínu, sakaði Rússa um að dreifa samsæriskenningum um að flaugarnar hafi verið úkraínskar en að það væri ekki satt.

„Enginn ætti að kaupa rússneskan áróður eða básúna hann. Það hefði átt að læra þá lexíu fyrir löngu eftir að flug MH17 var skotið niður,“ tísti Kúleba og vísaði til þess þegar Rússar skutu niður malasíska farþegaflugvél yfir Úkraínu árið 2014.


Tengdar fréttir

Rússnesk flugskeyti sögð hafa fellt tvo í Póllandi

Tveir eru sagðir látnir eftir að rússnesk flugskeyti hæfðu þorp í austanverðu Póllandi nærri landamærunum að Úkraínu í dag. Pólska ríkisstjórnin situr á neyðarfundi en rússneska varnarmálaráðuneytið hafnar því að hafa skotið flugskeytunum.

Ástandið alvarlegt eftir umfangsmestu árás Rússa

Úkraínumenn segja Rússa hafa skotið minnst 85 eldflaugum á skotmörk víða um landið í dag. Stór hluti landsins sé rafmagnslaus og sömuleiðis netleysi víða. Árásin er sögð vera mögulega sú umfangsmesta frá því innrás Rússa hófst í febrúar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×