Íslenski boltinn

„Markmiðið er að þjálfa landsliðið mitt“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Samira Suleman nýtur sín í botn í þjálfun.
Samira Suleman nýtur sín í botn í þjálfun. vísir/arnar

Samira Suleman, leikmaður ÍA, varð fyrsta konan frá Gana til að útskrifast með UEFA B þjálfarapróf. Hún er búin að festa rætur á Íslandi en draumurinn er að þjálfa landslið heimalandsins.

Samira kom fyrst hingað til lands 2015 þegar hún gekk í raðir Víkings Ólafsvíkur. Hún hefur einnig spilað með Aftureldingu/Fram, Sindra og ÍA. Meðfram því hefur starfað við þjálfun og menntað sig á því sviði. Og hún er eina konan frá Gana sem er með UEFA B þjálfararéttindi.

„Ég fékk réttindin fyrr á þessu ári. Hingað til hefur þetta verið gott fyrir mig. Ég lagði mikla vinnu á mig en ég náði prófinu,“ sagði Samira í samtali við Vísi á dögunum.

Hún kveðst stolt af því að vera fyrsta ganverska konan til að útskrifast með UEFA B þjálfaragráðuna.

„Heima fyrir eru ekki margar konur í þjálfun og það er mjög gott fyrir mig að komast á þetta stig,“ sagði Samira. Hún segist hafa byrjað að þjálfa fljótlega eftir að hún kom til Íslands fyrir sjö árum.

„Eins og venjulega með erlenda leikmenn var það í samningnum mínum að ég myndi hjálpa við þjálfun barna. Ég fékk mikinn áhuga á þessu þegar ég hjálpaði krökkunum. Svo ákvað ég að ná mér í réttindi til að geta orðið frábær þjálfari í framtíðinni,“ sagði Samira. Hún stefnir hátt í þjálfun. „Markmiðið er að þjálfa landsliðið mitt,“ sagði Samira.

Klippa: Viðtal við Samiru Suleman

Alla virka daga er hún inni í Akraneshöllinni að þjálfa framtíðar leikmenn ÍA og nýtur þess í botn.

„Eins og þú sérð eru krakkar út um allt hérna. Það er frábært að vera í kringum börn. Aðalástæðan fyrir því að ég fór út í þjálfun var til endurgreiða fótboltanum því hann hefur gefið mér mikið. Fótbolti er allt fyrir mér þannig ég ákvað að fara að þjálfa til að geta gefið til baka til þess sem hefur gefið mér allt í lífinu,“ sagði Samira.

Um klukkan 14:00 á hverjum virkum degi hrúgast krakkar inn í Akraneshöllina þar sem Samira og fleiri taka á móti þeim.vísir/arnar

Hún gæti ekki verið ánægðari með að þjálfa í höfuðstað fótboltans á Íslandi, Akranesi.

„Það er stórkostlegt. Allir hérna elska fótbolta og svo þetta er frábært, svo gott. Þú færð að hitta og læra af stórum þjálfurum. Aðstæður hérna eru góðar og allt er til fyrirmyndar,“ sagði Samira.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×