Erlent

Svíar hafna Kúrdum til að friðþægja Tyrki

Kjartan Kjartansson skrifar
Tobias Billström, utanríkisráðherra Svíþjóðar, boðar að Svíar ætli að úthýsa tveimur kúrdískum samtökum sem Tyrkir líta á sem hryðjuverkasamtök. Svo virðist sem það sé verð sem Svíar þurfa að greiða til að Tyrkir láti af andstöðu við NATO-aðild þeirra.
Tobias Billström, utanríkisráðherra Svíþjóðar, boðar að Svíar ætli að úthýsa tveimur kúrdískum samtökum sem Tyrkir líta á sem hryðjuverkasamtök. Svo virðist sem það sé verð sem Svíar þurfa að greiða til að Tyrkir láti af andstöðu við NATO-aðild þeirra. AP/Fredrik Sandberg/TT fréttaveitan

Sænska ríkisstjórnin ætlar að láta af stuðningi við vopnaða sveit Kúrda í Sýrlandi og stjórnmálaflokk sem tengist henni til þess að friðþægja Tyrki. Recep Erdogan Tyrklandsforseti hefur sett sig upp á móti aðild Svía og Finna að Atlantshafsbandalaginu vegna stuðnings þeirra við Kúrda.

Svíar og Finnar ákváðu að sækja um aðild að NATO í sumar í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu. Öll aðildarríkin þurfa að samþykkja inngöngu nýrra ríkja og mættu Norðurlandaþjóðirnar strax ljóni í veginum í líki Erdogans. Ríkisstjórn hans skilgreinir samtök Kúrda sem hryðjuverkasamtök.

Nú segir Tobias Billström, utanríkisráðherra Svíþjóðar, að ríkisstjórn hans muni hvorki styðja YPG-hersveit Kúrda í Sýrlandi né PYD-flokkinn, stjórnmálaarm þeirra, að sögn sænska ríkisútvarpsins

YPG hefur verið bandamaður NATO og Bandaríkjahers gegn hryðjuverkasamtökunum alræmdum Ríki íslams í Sýrlandi. Tyrkir skilgreina bæði YPG og PYD sem hryðjuverkasamtök.

„Það eru of náin tengsl á milli þessara samtaka og PKK, sem er á lista Evrópusambandsins yfir hryðjuverkasamtök, til að það sé gott fyrir samband okkar og Tyrklands,“ sagði Billström í viðtali í dag.

Billström lætur ummælin falla aðeins örfáum dögum fyrir fyrirhugaðan fund Ulfs Kristerssons forsætisráðherra með Erdogan.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, hvatti Tyrki til þess að láta af andstöðu sinni við aðild Finna og Svía í vikunni. Ríkin hefðu þegar gert nóg til þess að koma til móts við kröfur stjórnvalda í Ankara.

Erdogan hefur meðal annars krafist þess að Svíar og Finnar grípi til aðgerða gegn stuðningsmönnum kúrdísku samtakanna sem eru búsettir þar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×