Erlent

Dramatísk endur­koma Netanja­hú á loka­metrunum

Bjarki Sigurðsson skrifar
Benjamín Netanjahú ásamt eiginkonu sinni, Söru, á kosningavöku í nótt.
Benjamín Netanjahú ásamt eiginkonu sinni, Söru, á kosningavöku í nótt. Getty/Amir Levy

Allt lítur út fyrir að blokk Benjamíns Netanjahú, fyrrverandi forsætisráðherra Ísraels, nái 65 sætum af 120 á ísraelska þinginu. Líklegast er að hann verði aftur forsætisráðherra en hann þarf að treysta á stuðning öfgamannanna þeirra Itamar Ben-Gvir og Bezalel Smotrich. Ben-Gvir leiddi eitt sinn samtök sem eru skilgreind sem hryðjuverkasamtök í Bandaríkjunum. 

Í gær hófust þingkosningar í Ísrael en verið er að kjósa í fimmta sinn á einungis fjórum árum. Búið er að telja 86 prósent atkvæða en alls þarf 61 þingmann til að mynda ríkisstjórn. Hægri blokkin sem leidd er af Netanjahú er sem stendur með 65 þingmenn.

Til að geta mynda ríkisstjórn þarf Netanjahú að vinna með hægri-öfga flokknum Heittrúaður Zíonismi. Leiðtogar flokksins, Ben-Gvir og Smotrich, eru þekktir fyrir afar öfgafullar skoðanir um araba í Ísrael og vilja reka þá úr landi sem ekki eru dyggir stuðningsmenn Ísrael. 

Ben-Gvir leiddi eitt sinn samtök að nafni Meir Kahane en samtökin voru síðar bönnuð af yfirvöldum í Ísrael. Afar öfgafullar skoðanir einkenndu starfsemi samtakanna. Svo öfgafullar voru þær að þau eru skilgreind sem hryðjuverkasamtök í Bandaríkjunum. 

Í fyrstu útgönguspám kom fram að blokkin myndi rétt slefa upp í 61 sæti en nú virðist sigur Netanjahú vera ansi stór. Ef engar stórar breytingar verða á niðurstöðum kosninganna verður hann þar með orðinn forsætisráðherra aftur. 

Netanjahú varð fyrst forsætisráðherra árið 1996 en tapaði síðan í kosningum árið 1999 fyrir Ehud Barak og vinstri blokkinni. Netanjahú komst aftur til valda árið 2009 og gegndi stöðu forsætisráðherra allt til ársins 2021 þegar Naftali Bennet tók við. 

Bennet gegndi stöðunni í einungis rúmt ár áður en Yair Lapid tók við í júlí á þessu ári. Hann er helsti keppinautur Netanjahú í kosningunum í ár. Ef hægri blokkin sigrar rústar Lapid metinu yfir þann kjörna forsætisráðherra sem hefur gegnt embættinu styst. Metið er nú í eigu Yitzhak Shamir sem var við völd frá október árið 1983 til september árið 1984. 


Tengdar fréttir

Nýr for­sætis­ráð­herra og enn einar kosningarnar fram­undan

Yair Lapid hefur tekur við embætti forsætisráðherra Ísraels, en hann tekur við af Naftali Bennett sem gegnt hafði stöðunni í um eitt ár. Lapid er leiðtogi eins af miðjuflokkunum á ísraelska þinginu og mun hann leiða landið fram að þingkosningum sem boðaðar hafa verið 1. nóvember næstkomandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×