Fótbolti

Bakslag hjá Pogba sem missir af HM

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Paul Pogba verður ekki með Frakklandi á HM.
Paul Pogba verður ekki með Frakklandi á HM. Daniele Badolato/Getty Images

Franski miðvallarleikmaðurinn Paul Pogba var í kapphlaupi við tímann um að ná HM í fótbolta sem hefst þann 20. nóvember næstkomandi. Nú er ljóst að hann hefur tapað kapphlaupinu og getur ekki hjálpað þjóð sinni að verja titilinn sem vannst sumarið 2018 í Rússlandi.

Hinn 29 ára gamli Pogba gekk í raðir Juventus á nýjan leik í sumar. Kom hann á frjálsri sölu frá Manchester United en enska félagsliðið hafði fest kaup á honum sumarið 2016. Endurkoma Pogba hefur verið þyrnum stráð þar sem hann hefur verið meiddur frá því á undirbúningstímabilinu og ekki enn spilað leik.

Miðjumaðurinn var vongóður um að ná að hefja æfingar áður en Didier Deschamps, landsliðsþjálfari Frakklands, myndi tilkynna hóp sinn fyrir HM í Katar. Pogba sneri aftur til æfinga með Juventus í síðustu viku en varð fyrir áfalli þgar hann meiddist á hné á nýjan leik.

Þar með er ljóst að Pogba mun ekki geta tekið þátt í undirbúningi Frakka fyrir mótið þar sem hann mun ekki geta hafið æfingar að nýju fyrr en á næsta ári. Umboðsmaður leikmannsins, Rafaela Pimenta, staðfesti þetta í viðtali í dag.

Pogba var mikilvægur hlekkur í liði Frakklands sem vann HM árið 2018. Skoraði hann til að mynda eitt mark í 4-2 sigrinum á Króatíu í úrslitum. 


Tengdar fréttir

Pogba nálgast fulla heilsu | Gæti náð HM

Paul Pogba, leikmaður Juventus og franska landsliðsins, gæti snúið aftur til æfinga fyrr en áætlað var. Pogba fór í aðgerð í síðasta mánuði vegna meiðsla í hægra hné.

Kanté missir að öllum líkindum af HM

Það virðast litlar sem engar líkur á því að N‘Golo Kanté geta hjálpað Frakklandi að verja heimsmeistaratitil sinn í knattspyrnu þegar HM fer fram í Katar undir lok þessa árs. Talið er að miðjumaðurinn öflugi verði frá næstu þrjá mánuðina vegna meiðsla aftan í læri.

Pogba fær lögregluvernd á Ítalíu

Franski fótboltamaðurinn Paul Pogba, sem er leikmaður Juventus á Ítalíu, fær nú vernd lögreglu þar í landi sökum meints fjárkúgunarmáls innan fjölskyldu hans.

Bróðir Paul Pogba hnepptur í varðhald

Mathias Pogba, bróðir Paul Pogba, hefur gefið sig fram við yfirvöld í Frakklandi og situr nú í varðhaldi vegna tilrauna til fjárkúgana gegn bróðir sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×