Erlent

Skemmdu nýja flaggskip Rússa í drónaárás

Samúel Karl Ólason skrifar
Freigátan Makarov aðmíráll var gerð að flaggskipi Rússa í Svartahafi eftir að Moskva sökk.
Freigátan Makarov aðmíráll var gerð að flaggskipi Rússa í Svartahafi eftir að Moskva sökk. EPA/ALEXEI DRUZHININ

Úkraínumenn gerðu í nótt árásir á rússneska flotann í Svartahafi við Krímskaga. Notast var við dróna við árásina og þá bæði fljúgandi og siglandi dróna en Úkraínumenn eru sagðir hafa skemmt Makarov aðmírál, flaggskip svartahafsflota Rússa.

Makarov var gert að flaggskipi Rússa í Svartahafi eftir að Moskva sökk í kjölfar eldflaugaárásar Úkraínumanna.

Rússar segja skipið ekki hafa orðið fyrir miklum skemmdum. Annað skip sem hannað er til að leitað að tundurduflum er einnig sagt hafa skemmst í árásinni og þar að auki hafa birst myndir sem sýna skemmdir við eldsneytisgeymslur í Sevastopol á Krímskaga.

Rússar segja sextán dróna hafa verið notaða við árásina.

Ráðamenn í Úkraínu hafa ekki tjáð sig um árásina enn en myndefni frá árásinni hefur verið birt á netinu. Það sýnir meðal annars myndband frá einum drónabát sem Úkraínumenn notuðu við árásina.

Rússar gerðu innrás í Krímskaga árið 2014 og innlimuðu héraðið ólöglega af Úkraínu. Embættismenn þar heita því að árásin hafi verið stöðvuð og hafa í senn skipað fólki að slökkva á öllum öryggismyndavélum á svæðinu og bannað þeim að birta myndefni sem tengist árásinni.

Myndefnið sem tekið var með drónabátunum má sjá hér að neðan. Það er í tveimur hlutum.

Annað þeirra sýnir árásina á Makarov. Hitt sýnir árásina á tundurduflaleitarskipið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×