Erlent

Sakfelldir fyrir ráðabrugg um að ræna ríkisstjóra

Kjartan Kjartansson skrifar
Sakborningarnir þrír, frá vinstri: Paul Bellar (24 ára), Joseph Morrison (28 ára) og Pete Musico (44 ára).
Sakborningarnir þrír, frá vinstri: Paul Bellar (24 ára), Joseph Morrison (28 ára) og Pete Musico (44 ára). AP/Alvin S. Glenn-fangelsið og lögreglustjórinn í Jackson-sýslu

Þrír karlmenn á þrítugs og fimmtungsaldri voru sakfelldir fyrir að leggja á ráðin um að ræna Gretchen Whitmer, ríkisstjóra Michigan. Mennirnir tilheyrðu vopnaðri öfgasveit sem mislíkaði aðgerðir Whitmer til að stemma stigu við kórónuveirufaraldrinum.

Fjórtán meðlimir sveitarinnar Wolverine Watchmen voru handteknir í október 2020. Útsendarar alríkislögreglunnar FBI og uppljóstrar höfðu þá komið sér fyrir innan samtakanna um mánaðaskeið. Leiðtogi hópsins, Adam Fox, var sakfelldur um að skipuleggja mannrán fyrir alríkisdómstól í ágúst. Þrír aðrir hafa ýmist verið dæmdir sekir eða játað sök en tveir verið sýknaðir.

Whitmer sakaði ekki en hópurinn hafði njósnað um ferðir hennar og æft hvernig hann ætlaði að nema hana á brott. Fyrir dómi kom fram að meðlimir hópsins hafi stutt borgarastríð sem gæti brotist út í kjölfar mannráns á þekktum einstaklingi. Mennirnir töluðu um sín á milli að handtaka Whitmer borgaralega og jafnvel taka hana af lífi.

Mennirnir þrír sem voru sakfelldir í dag æfðu með Fox en ferðuðust ekki til norðurhluta Michigan til þess að kortleggja aðstæður við sumarhús ríkisstjórans eða taka þátt í annarri æfingu fyrir mannrán. Verjendur þeirra fullyrtu að þeir hefðu slitið tengsl við hópinn áður en ráðabruggið var langt á veg komið.

Þeir voru engu að síður sakfelldir fyrir að aðstoða við hryðjuverk. skotvopnaglæpi og aðild að glæpagengi, að sögn AP-fréttastofunnar. Refsing þeirra verður ákvörðuð um miðjan desember.

Meðlimir vopnuðu sveitarinnar voru handteknir nokkrum mánuðum eftir að Donald Trump, þáverandi Bandaríkjaforseti, hvatti stuðningsmenn sína til þess að mótmæla sóttvarnaaðgerðum og „frelsa“ heimaríki sín, þar á meðal Michigan.


Tengdar fréttir

Tveir sem ætluðu að ræna ríkisstjóra dæmdir

Tveir menn hafa verið dæmdir fyrir ráðabrugg sem gekk út á að ræna Gretchen Whitmer, ríkisstjóra Michigan í Bandaríkjunum. Þeir tilheyrðu hópi sem ætlaði að ræna ríkisstjóranum vegna aðgerða hennar til að sporna gegn útbreiðslu Covid-19. Mennirnir ætluðu að halda einhverskonar „réttarhöld“ gegn Whitmer og mögulega taka hana af lífi.

Ákærðir fyrir að ætla að ræna ríkisstjóra Michigan

Sex bandarískir menn hafa verið formlega ákærðir fyrir að hafa ætlað að ræna Gretchen Whitmer, ríkisstjóra Michigan. Mennirnir voru handteknir í október eftir að þeir ræddu sín á milli um að ráðast á sumarhús ríkisstjórans og ræna henni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×