Enski boltinn

Ronaldo mættur aftur á æfingar og gæti spilað á fimmtudaginn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo hefur spilað mikið í Evrópudeildinni á þessu tímabili.
Cristiano Ronaldo hefur spilað mikið í Evrópudeildinni á þessu tímabili. Getty/Manchester United

Cristiano Ronaldo er byrjaður að æfa á ný með aðalliði Manchester United eftir að hafa verið settur í skammakrókinn fyrir fýlukastið sitt í Tottenham leiknum.

Nýjustu fréttirnar sem hafa lekið úr herbúðum Manchester United er að Ronaldo gæti spilað strax á fimmtudaginn á móti FC Sheriff í Evrópudeildinni.

Ronaldo missti af 1-1 jafntefli United og Chelsea um síðustu helgi eftir að hafa neitað að koma inn á sem varamaður í sigurleiknum á móti Tottenham í vikunni á undan.

Hinum 37 ára gamla Ronaldo var sagt að æfa einn með styrktarþjálfara félagsins en Portúgalinn var ekki lengi í frystinum.

ESPN segir að þeir Ten Hag og Ronaldo hafi rætt mikið saman yfir helgina og að þetta mál heyri nú sögunni til.

Það var frí hjá leikmönnum United í gær en Ronaldo var síðan mættur í dag þegar æfingar fyrir Evrópudeildarleikinn hófust á æfingasvæði United.

United er í öðru sæti riðilsins, þremur stigum á eftir toppliði Real Sociedad, þegar tveir leikir eru eftir.

Ronaldo hefur skorað 2 mörk í 12 leikjum í öllum keppnum á leiktíðinni en hann hefur spilað 350 mínútur af 360 í boði í Evrópudeildinni í vetur. Hann hefur spilað fleiri mínútur í Evrópudeildinni en í ensku úrvalsdeildinni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.